Dagur minnist þess að vinna kosningar með fimm atkvæðum - „Brosi enn við minninguna“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem í kvöld vonast eftir áframhaldandi umboði í borgarstjórnarkosningum, minnti fólk á að kjósa, nú þegar kjörstaðir eru einungis opnir í klukkutíma í viðbót. Þetta gerði hann á Twitter.

„Rétt rúm klukkustund í lokun kjörstaða í Reykjavík - stefnir í hnífjafnar kosningar - nýtum kosningaréttinn! Og sjálfsagt að kjósa í Eurovision í gegnum símann í leiðinni! Koma svo!“ skrifaði Dagur, og í kjölfarið spurði Twitter-ungstyrnið Jón Bjarni borgarstjórann hvort hann væri stressaður.

Dagur sagðist vera peppaður, og minntist þess að hafa unnið stúdentakosningar með einungis fimm atkvæðum.

„Peppaður - en vann einu sinni stúdentakosningar á fimm atkvæðum. Hættum ekki að hringja og minna fólk á að kjósa fyrr en kjörstaðir lokuðu. Þekkti þessa fimm kjósendur öll með nafni. Brosi enn við minninguna. Miklu meira í húfi nú.“