Dagur kennir Davíð um tafir Sundabraut og birtir hljóðritað samtal: „Sársaukafullt og vandræðalegt“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hæðist að Sjálfstæðismönnum og segir að þeir hafi einungis talað um Sundabraut en aldrei neitt gert til að hún verði að veruleika. Dagur hefur fengið á sig mikla gagnrýni að það sé hann sem standi í vegi fyrir Sundabraut, sem er nú á dagskrá eftir fjögur ár.

Hann segir í færslu á Facebook að það hafi frekar verið Davíð Oddsson, fyrrverandi ráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem hafi tafið fyrir verkinu:

„Ég ræði það í stuttum kafla í bókinni minni Nýju Reykjavík að margir Sjálfstæðismenn hafi leikið þann leik að þykjast hafa áhuga á Sundabraut - en ekkert gert nema að tala um hana - þótt þeir hafi haft völd og aðstöðu til. Skemmtilegastur er Davíð Oddsson Morgunblaðsritstjóri,“ segir Dagur á Faceboook.

„Hann var forsætisráðherra og seldi Símann á sínum tíma - lagði söluandvirðið inn í Seðlabankann og sagði það eiga að fara í Sundabraut og fleira - varð svo Seðlabankastjóri og tapaði allri upphæðinni og meira til á einum degi í Hruninu.“

Dagur heldur áfram: „Nánar tiltekið þá lánaði hann peningana til Kaupþings án þess að hirða um að útbúa einu sinni lánaskjöl, að því er virðist vitandi það að líklega væri þetta tapað fé.“

Vitnar hann svo í hljóðritað samtal:

„Hljómar einsog lygasaga - en hljóðritað símtal Davíðs Seðlabankastjóra og þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde, frá þessum degi, ber með sér að þeim var ljóst að þeir voru að taka mikla áhættu með Sundabrautar og Landsspítala-peningana sem fengust fyrir sölu Símans. Davíð birti símtalið sjálfur í Morgunblaðinu - eftir að hann var orðinn ritstjóri - og þar segir á einum stað:

Davíð: „Við megum ekki setja íslenska ríkið á galeið­una.“

Geir svar­ar: „Nei, nei, þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in.““

Vísar Dagur svo í skrif Morgunblaðsins í dag:

„Margir hafa vitnað um góðan húmor Davíðs. Það er til marks um hvað hann getur verið svartur að í Morgunblaðinu í dag gleymir hann að nefna þetta smáræði úr sögu Sundabrautarinnar en kennir borgarstjórn um að hún sé ekki orðin að veruleika. Enginn veit betur en Davíð að það er fjarri sanni en auðvitað er sársaukafullt og vandræðalegt í senn að rifja upp hvernig raunverulega í málinu liggur.“