Gunnar Egill Daníelsson skrifar

Dagur kári leikstýrir þáttaröð fyrir hbo europe

14. ágúst 2019
13:11
Fréttir & pistlar

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Dagur Kári mun leikstýra norsku gamanþáttaröðinni Utmark, eða Wilderness eins og hún mun heita á ensku, fyrir HBO Europe. Þættirnir verða átta talsins og mun Dagur Kári leikstýra þeim öllum. Tökur á þáttaröðinni hefjast á næstu dögum.

Klapptré greinir frá. Þar segir að Wilderness sé lýst sem gamansömu drama sem gerist í norskum smábæ rétt norður af hjara veraldar. Þáttaröðin fjallar um spilltan lögreglustjóra, áfengissjúkan fjárhirði og náttúruelskandi bruggara.

Fyrir tveimur árum leikstýrði Dagur Kári þremur þáttum af dönsku glæpaþáttaröðinni Norskov. Hann er þekktastur fyrir fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Nóa albínóa og hefur síðan þá leikstýrt kvikmyndunum Voksne mennesker, The Good Heart og Fúsa. Bæði Nói albínói og Fúsi unnu til fjölda alþjóðlegra verðlauna á virtum kvikmyndahátíðum.