Dagur fengið nóg: Ofbýður umgengni Íslendinga – Kúka og skilja eftir klósettpappír

„Það er mikið af munntóbaksbréfum um allt hérna og svo er fólk búið að vera að kúka og skilja eftir klósettpappír um allt.“

Þetta sagði Dagur Torfason, landeigandi í Skagafirði, í kvöldfréttum Sjónvarps í gærkvöldi. Þar var fjallað um Fosslaug og slæma umgengni á svæðinu að undanförnu sem líklega má rekja til Íslendinga – enda afar fáir ferðamenn verið á landinu undanfarna mánuði.

Hreinsað var upp úr lauginni árið 2011 sem er um 40 gráðu heit og því hentug til baðferða. Aðgangur í laugina er ókeypis. Dagur segir að sóðaskapur á svæðinu hafi ekki verið vandamál fyrr en nú sem líklega megi rekja til vaxandi vinsælda laugarinnar. Um hundrað manns heimsækja hana á hverjum degi, að sögn Dags.

Dagur útilokar ekki að fylla hreinlega upp í laugina ef umgengnin á svæðinu skánar ekki. Hann ætlar þó að sjá hvort umfjöllun um málið hafi eitthvað að segja. „Annars verður bara sett mold í laugina og sáð yfir,“ segir hann.

Mynd: Skjáskot úr kvöldfréttum RÚV