Dagur elskenda, Valentínusardagurinn rómantíski

Valentínusardagurinn, sem einnig hefur verið nefndur Valentínsdagur, er dagur helgaður ástinni sem haldinn er hátíðlegur á messudegi heilags Valentínusar 14. febrúar ár hvert. Gaman er að geta þess að dagurinn á uppruna sinn að rekja í Evrópu á 14.öld en ekki frá Bandaríkjunum eins og margir halda. Meðal þess sem er hefðbundið að gera þennan dag er að senda sínum heittelskaða/sinni heittelskuðu rómantískar gjafir á borð við blóm og konfekt og láta Valentínusar kort fylgja með. Þessar hefðir eiga uppruna sinn í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum. Í löndum þar sem ekki er löng hefð fyrir því að halda Valentínusardaginn hátíðlegan hafa bandarískir siðir gjarnan fylgt þegar venjan er tekin upp.

Dekurdagur með öllu tilheyrandi

Valentínusardagurinn hefur þróast hér á Íslandi frá því að gefa fallegan blómvönd með korti, í dekurdag eða jafnvel dekurhelgi en fyrsta heimildin um hann hér á landi er frá árinu 1958. Margir gera vel við ástina sína með því að tjá ástina sína gegnum sælkeramáltíð og bjóða í huggulegan dögurð eða kvöldverð þar natnin og ástríðan er í forgrunni þegar kemur að framreiðslunni. Sumir bjóða í rómantíska gistingu á hóteli þar sem hlúð er að ástinni með dekri frá morgni til kvölds. Aðrir útbúa rómantíska stund heima við, með mat og drykk við kertaljós og nú er líka hægt að fá rómantíska tónleika heim í stofu. Í ár eru í boði tónleikar með Bubba Morthens sem bera yfirskriftina „Það er gott að elska.“ Það má með sanni segja að það séu til margar leiðir til að tjá ást sína og hver og einn getur gert það með sínu nefi. Það sem mestu máli skiptir er að muna að tjá ást sína með einhverjum hætti, því mikilvægt er að segja þeim sem við elskum að við elskum þá.