Dagur borgarstjóri fagnar afmæli Hörpu: „Hvernig var Reykjavík án Hörpu?“

Tónlistarhúsið Harpa fagnar nú tíu ára afmæli. Húsið, sem er nú eitt af einkennum miðborgar Reykjavíkur, hefur verið umdeilt frá bankahruninu en frægt er þegar Kári Stefánsson lagði til að húsið yrði sett „á salt“ á meðan kreppan stæði sem hæst.

Reksturinn er í 54% eigu ríkisins og 46% í eigu Reykjavíkurborgar. Mikið hefur verið fjallað um ósjálfbærni í rekstri, nú síðast í viðtali RÚV við Njörð Sigurjónsson, doktor í menningarstjórnun, sem sagði reksturinn aldrei verða sjálfbæran.

Halldór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri, birti í fyrra pistil um stjórnsýsluna í kringum rekstur hússins undir heitinu Kafka við Sæbrautina. Margir hafa sett spurningamerki við stjórnendur og fjölda stjórnenda sem starfa í Hörpu, þá sérstaklega Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, sem hafði mikið fyrir að grafa upp endanlegan byggingakostað. Fyrir þremur árum var uppákoma þegar stjórn Hörpu hækkaði laun forstjórans, Svanhildar Konráðsdóttur, um rúm 20 prósent, skömmu eftir að þjónustufulltrúar voru beðnir um að taka á sig launalækkun.

Í tilefni tímamótanna birtir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ótrúlegar samanburðarmyndir á Twitter og spyr: „Hvernig var Reykjavík án Hörpu?“