Dæmdur fyrir að hóta dóttur sinni líf­láti

2. júlí 2020
12:41
Fréttir & pistlar

Héraðs­dómur Reykja­ness hefur dæmt karl­mann í eins mánaðar fangelsi, skil­orðs­bundið í tvö ár, fyrir að hóta dóttur sinni líf­láti. Maðurinn var á­kærður fyrir senda þrjú smá­skila­boð til hennar haustið 2017 en efni þeirra var til þess fallið að vekja hjá henni ótta um líf sitt, heil­brigði og vel­ferð.

Í skeytunum sagði maðurinn:

  1. Sent 4. októ­ber 2017, kl. 19:43: „eg mun drepa þig skitseiði...“.
  2. 2. Sent 4. októ­ber 2017, kl. 21:00: „eg mun drepa þig skitseiði þitt að eg skuli hafa att þig @#$#“.
  3. 3. Sent 4. októ­ber 2017, kl. 21:04: „og endi­lega hittu mig eða [...] eg mun drepa annað hvort eg er buin“

Maðurinn játaði sök fyrir dómi en honum hefur ekki verið gerð refsing áður. Fyrir dómi var lagt fram vott­orð sál­fræðings þar sem segir að maðurinn hafi verið í við­tölum hjá sál­fræðingi síðan í októ­ber 2017.

Hann hafi komið í alls 44 skipti þar sem hann hafi unnið með sjálfan sig al­mennt og sam­skipti sín við fjöl­skyldu­með­limi. Í vott­orðinu, sem er dag­sett í maí síðast­liðnum, segir að sam­skipta­færni mannsins sé orðin mjög góð og náin sam­skipti hans í dag gangi al­mennt mjög vel.

Í niður­stöðu dómsins kemur fram að horft hafi verið til þess að maðurinn hafi sýnt í verki vilja til að bæta ráð sitt. Á hinn bóginn hafi brot mannsins beinst að dóttur hans og verið til þess fallið að vekja hjá henni ótta um líf sitt. Þá var manninum gert að greiða þóknun verjanda síns, rúmra 185 þúsund krónur.