CO­VID-19 virðist dreifast hraðar en áður vegna stökk­breytingar

3. júlí 2020
14:51
Fréttir & pistlar

Sterkar vís­bendingar eru um að stökk­breyting í kórónu­veirunni sem veldur CO­VID-19 hafi orðið til þess að hún á auð­veldara með að dreifa sér milli fólks en áður. Frá þessu greinir CNN sem vísar í niður­stöður vísinda­manna sem birtust í tíma­ritinu Cell.

Þó að veiran virðist eiga auð­veldara með að dreifa sér virðist hún ekki valda meiri eða verri ein­kennum. Erica Oll­mann Sap­hire, vísinda­maður við La Jolla Insti­tute for Immunology, segir að rann­sóknin bendi til þess að þessi stofn veirunnar hafi komið frá Evrópu til Banda­ríkjanna og hann sé nú ráðandi í þeim smitum sem greinast vestan­hafs.

Í frétt CNN kemur fram að stökk­breytingin hafi á­hrif á svo­kallað bindi- eða brodd­prótín (e. spi­ke prot­ein) í veirunni. Þetta prótín er á ytri borði veirunnar og hefur á­hrif á það hvort veiran geti komist inn fyrir yfir­borð hýsil­frumna, til dæmis frumna í manns­líkamanum.

Í frétt CNN kemur fram að þessi stofn veirunnar, G614, sé nú orðinn mun al­gengari en fyrir­rennarinn D614. Virðist munurinn liggja í um­ræddu bindi­prótíni og getunni til að komast inn í frumur. „Við túlkum þetta sem svo að veiran sé senni­lega orðin meira smitandi. Það sem er þó á­huga­vert er að veiran hefur ekki á­hrif á það hversu þungt sjúk­dómurinn leggst á fólk,“ segir Bette Korber, líf­fræðingur hjá Los Alamos National Laboratory.

CNN hefur eftir Lawrence Young, prófessor við Uni­versity of Warwick á Eng­landi, að sú stað­reynd að veiran valdi ekki al­var­legri sjúk­dóms­ein­kennum en áður séu góðar fréttir. Vonir vísinda­manna hafi staðið til þess að með tímanum yrði veiran ekki eins sjúk­dóms­valdandi þó hún gæti haldið á­fram að dreifa sér.