CO­VID-19 varð Jóhannesi að bana: „Hann var mikil fyrir­mynd“

25. janúar 2021
10:14
Fréttir & pistlar

Jóhannes Eð­valds­son, fyrr­verandi lands­liðs­maður í knatt­spyrnu, lést í gær á sjúkra­húsi í Skot­landi. Jóhannes var sjö­tugur að aldri, fæddur 3. septem­ber árið 1950.

Margir hafa minnst Jóhannesar á sam­fé­lags­miðlum eftir að greint var frá and­láti hans. Einn þeirra er Guð­mundur Hilmars­son, fyrr­verandi í­þrótta­frétta­maður á Morgun­blaðinu, til fjölda ára og vinur Jóhannesar.

„Góður vinur fallinn frá. Jóhannes Eð­valds­son (Búbbi) lést á sjúkra­húsi í Glas­gow í Skot­landi í dag. Fékk co­vid og tapaði bar­áttunni við þá skæðu veiru. Jóhannes var leik­fimis­kennari minn í nokkur ár og það er ó­hætt að segja það að hann hafi verið gall­harður og fylginn sér í því starfi. Hann var mikil fyrir­mynd í boltanum. Grjót­harður og topp varnar­maður og markið sem hann skoraði á móti A-Þjóð­verjum með hjól­hesta­spyrnu árið 1975 gleymist seint. Okkar leiðir lágu saman aftur þegar ég gerðist spilandi þjálfari Reynis í Sand­gerði eftir ferilinn hjá FH. Búbbi tók þá við starfi sem fram­kvæmda­stjóri Reynis og það voru góðir tímar hjá okkur. Hvíl í friði kæri vinur.“

Jóhannes lék 34 lands­leiki fyrir Ís­land á árunum 1971 til 1983 en hann var á há­tindi ferils síns á árunum 1975-1980 þegar hann spilaði með skoska stór­liðinu Glas­gow Celtic. Er Jóhannes mörgum stuðnings­mönnum Celtic enn í fersku minni. Á ferli sínum lék hann einnig í Suður-Afríku, Þýska­landi og Banda­ríkjunum. Auk þess lék hann með Val og Þrótti hér á landi.

Fjallað var um and­lát Jóhannesar á vef The Scottish Sun í gær­kvöldi og var meðal annars vísað í fal­leg orð Mur­do Mac­leod, liðs­fé­laga Jóhannesar hjá Celtic. „Mjög sorg­mæddur að heyra af and­láti Jóhannesar,“ segir Mur­do en Jóhannes gekk undir gælu­nafninu Big Shuggi­e hjá skoska stór­liðinu.

„Hann lék stórt hlut­verk í liðinu þegar við unnum Rangers, 4-2, árið 1979 sem varð til þess að við urðum meistarar,“ sagði Mur­do einnig. Í frétt The Times um and­lát Jóhannesar segir að hann hafi verið í upp­á­haldi hjá stuðnings­mönnum Celtic, enda var hann þekktur fyrir mikla ó­sér­hlífni. Hann gat leyst margar stöður á vellinum en leið yfir­leitt best í miðri vörninni.