Býst við hröðum vexti rafbílaeignar

„Við sjáum fyrir okkur að þetta muni vaxa mjög hratt á næstu árum. Það er vegna þess að tæknin, hún er alveg að fara yfir þröskuld, þ.e.as. að bílar komist yfir 500 kílómetra á hleðslu. Þá er þetta farið að nálgast venjulegan bensínbíl. Og síðan verðið, að það verði viðráðanlegt. Þannig að okkur sýnist að það verði nánast skrið á næstu árum í fjölgun rafbíla.“

Þetta segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, um framtíð rafbíla hér á landi. Bjarni var í viðtali við Lindu Blöndal í Súrefni - þætti um umhverfismál á miðvikudagskvöld.

Orka náttúrunnar, sem heyrir undir OR, hefur sett upp 50 rafhlöður hringinn í kringum landið svo unnt sé að ferðast á rafbílum um landið. Í dag eru um 9.000 rafbílar á götum landsins, bæði hreinir rafbílar og svokallaðir tengi-tvinnbílar, sem nýta bæði rafmagns- og bensínmótor.

Bjarni segir að nýlega hafi hringurinn verið kláraður þar sem voru settar upp rafhlöður allan hringinn, stystu leiðina en einnig í uppsveitum og útnesi að nokkru leyti. „Þannig að það má segja að í dag sé hægt að eiga rafbíl nánast hvar sem er á landinu. Þú kemst í hlöðu til að hlaða og það var svona markmiðið með þessari fyrstu umferð okkar.“

Orka náttúrunnar spáir því að helmingur bílaflotans, um 100.000 bílar, verði rafbílar árið 2030. Eigi það að ganga eftir gefur það auga leið að fjölga verður rafhlöðum. „Það þarf að fjölga hlöðunum, það er alveg ljóst. Það þarf líka að fjölga tengingum í hverri hlöðu. Það er líka mikilvægt þannig að það sé hægt hlaða fleiri bíla samtímis. Síðan er drægnin alltaf að aukast, þannig að með tímanum verður minni þörf til þess að hlaða við hringveginn. Þannig að fólk getur þá bara hlaðið heima hjá sér og komist sína 400-500 kílómetra á einni hleðslu,“ segir Bjarni.

Hann segir að það sé misjafnt hve langt rafbílar komist á einni hleðslu. Það sé frá 100 kílómetrum upp í allt að 500 kílómetra nú þegar hjá dýrustu bílunum. „Þeir eru kannski óþarflega dýrir og allt of dýrir fyrir almenning.“

Hann segist búast við hraðri þróun á allra næstu árum í eign rafbíla hérlendis. „Kannski innan tveggja, þriggja ára þá er mjög líklegt að venjulegur fjölskyldubíll komist 500 kílómetra og verði á bara þokkalegu verði.“

Nánar var rætt við Bjarna í nýjasta þætti Súrefnis. Viðtalið í heild sinni er að finna hér: