Byggingu monthúsanna verður að stöðva strax

17. maí 2020
20:50
Fréttir & pistlar

Á sama tíma og áfall ríður yfir þjóðina ætlar Alþingi að eyða milljörðum króna í að reisa monthús utan um kontóra þingmanna og starfsfólks þingsins. Á því er alls engin brýn þörf og síst af öllu núna þegar á móti blæs og stefnir í risahalla hjá ríkissjóði.


Það vantar ekki enn einn minnisvarðann um óráðsíu í opinberum fjármálum. Útþensla í yfirstjórn ríkisins á undanförnum árum og áratugum hefur verið hrikaleg.


Sem minnisvarða um það ætlar Alþingi að láta reisa kontór fyrir 4.4 milljarða samkvæmt áætlun á sama tíma og kreppa dynur yfir. Reynslan sýnir að opinberar framkvæmdir eru ávalt miklu dýrari en áætlanir gera ráð fyrir. Líklegra er að þessi bygging muni frekar kosta 6 til 7 milljarða miðað við reynslu.


Starfsemi Alþingis er ekki á neinum hrakhólum og þingmenn hafa skrifstofur og næga fundaraðstöðu við Austurvöll.
Það þarf að stöðva þessi áform um milljarðasóun strax!


Jafnframt þarf að stöðva fyrirhugaða viðbyggingu við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Þar er ekki bara verið að leggja í vanhugsaða og óþarfa fjárfestingu heldur er menningarsögulegt stórslys í aðsigi.


Þetta litla og fallega hús er til mikillar prýði í hjarta borgarinnar. Það væri hörmulegt slys ef það yrði stórskemmt með óviðeigandi og forljótri viðbyggingu.
Ríkið getur fengið nægilegt húsnæði á leigu í nágrenninu til að koma fyrir kontórum fyrir alla þá aðstoðarmenn og aðra starfsmenn sem búið er að sanka að æðstu stjórn ríkisins. Nú er einmitt góður tími til að gera hagstæða leigusamninga.

Opinberum framkvæmdum hefur oft verið frestað áður þegar illa hefur árað. “Hola íslenskra fræða” er nýlegt dæmi um það en fyrsta skóflustunga að þeirri byggingu var tekin viku fyrir kosningar vorið 2013. Síðan gerðist ekkert í sex ár.

Spyrja má hvort þingmenn og ráðherrar sem vilja halda þessum offjárfestingum til streytu í kreppunni séu ekki í neinum tengslum við þann raunveruleika sem nú blasir við landsmönnum?

Oft hefur verið mótmælt af minna tilefni!

Björn Jón Bragason fjallar ítarlega um málið í nýjasta tbl. DV.


https://www.dv.is/eyjan/2020/05/15/er-virkilega-thorf-a-nyju-skrifstofuhusi-althingis-fyrir-44-milljarda/