Byggingar­full­trúi í hafnar­firði sam­þykkti sínar eigin teikningar

14. janúar 2020
12:23
Fréttir & pistlar

Hildur Bjarna­dóttir, byggingar­full­trúi í Hafnar­firði, hefur tvisvar sinnum skilað inn teikningum vegna breytinga á Karmel­klaustrinu við Öldu­slóð 37 í bænum. Frá þessu er greint á vef Fjarðar­frétta en skýr á­kvæði eru í lögum um mann­virki sem gera byggingar­full­trúum og starfs­mönnum hans ó­heimilt að vinna nokkuð það starf sem kann að koma til af­greiðslu í um­dæmi hans.

Í frétt miðilsins er vitnað í fundar­gerð frá af­greiðslu­fundi skipu­lags- og byggingar­full­trúa 5. desember sem Hildur ritaði. Þar kemur fram að byggingar­full­trúi hafi sam­þykkt erindi frá Kar­melítaklaustrinu sem hafi 2. desember sótt um byggingar­leyfi fyrir skýli við inn­gang og lyftu.

Þá segir að ofan við dag­skrár­liðinn í fundar­gerðinni standi að byggingar­full­trúi hafi vikið af fundi við af­greiðslu þessa máls. Ekki sé getið þess hver hafi gert við­komandi teikningar né heldur hver hafi verið stað­gengill byggingar­full­trúa hafi hann vikið af fundi.

Á fundinum sátu þau Hildur Bjarna­dóttir, Þor­móður Sveins­son, skipu­lags­full­trúi, Berg­lind Guð­munds­dóttir, arki­tekt auk Guð­rúnar Guð­munds­dóttur, verk­efna­stjóra. Öll eru þau starfs­menn á skrif­stofu um­hverfis-og skipu­lags­sviðs.

Þá vekur það at­hygli að þegar teikningin er skoðuð er hún ekki að­eins gerð og undir­rituð af Hildi Bjarna­dóttur, arki­tekt, heldur einnig stimpluð og þar með sam­þykkt af byggingar­full­trúa og er það sam­þykki veitt af hinni sömu Hildi.

Í um­fjöllun miðilsins segir að þetta sé ekki fyrsta skiptið sem slíkt hafi átt sér stað en auk tveggja teikninganna frá Öldu­slóð 37 er að finna teikningar fyrir hús að Traðar­bergi. Hún er einnig gerð af Hildi í janúar 2016, eftir að hún hafði tekið við sem byggingar­full­trúi. Auk þess má finna teikningar af húsi við Álfa­skeið sem hún mun hafa unnið að áður en hún var ráðin. Hluti teikninganna er dag­settur í mánuðinum áður en hún tók til starfa sem byggingar­full­trúi.

Sigurður Haralds­son, sviðs­stjóri, segir í svörum til miðilsins að Hildur hafi verið að klára tvö verk í Hafnar­firði þegar hún hafi hafið störf. Hún hafi fengið heimild til að klára þau verk.