Búinn að borða Bic Mac á hverjum degi í 50 ár – Svona lítur hann út í dag

Bandaríkjamaðurinn Don Gorske fagnaði ákveðnum tímamótum á dögunum en þá náði hann þeim áfanga að hafa borðað að minnsta kosti einn Big Mac á hverjum degi síðastliðin fimmtíu ár.

Bic Mac er einn vinsælasti hamborgarinn á matseðli McDonalds og kannski ekki margir sem tengja hann við langlífi og góða heilsu. Don er hins vegar 68 ára og við alveg hreint ágæta heilsu, þvert á það sem margir kynnu að halda.

„Ég fékk að heyra það á sínum tíma að ég yrði dauður áður en ég yrði fimmtugur,“ segir Don við bandaríska fjölmiðla. Hann borðaði sinn fyrsta Bic Mac þann 17. maí árið 1972 og síðan þá hefur hann aðeins misst úr átta daga.

Hann hafði til dæmis ekki lyst á Bic Mac daginn sem móðir hans lést og þá missti hann úr einn dag vegna óveðurs og ófærðar. Hann á nokkra Bic Mac-hamborgara í frystikistunni ef eitthvað sambærilegt kemur upp aftur.

Don er fyrrverandi fangavörður og hann kveðst hafa borðað Bic Mac í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og í Kanada. Hann borðar að jafnaði tvo Bic Mac á dag og drekkur yfirleitt kók með. Hann lætur frönsku kartöflurnar hins vegar eiga sig.

Don er duglegur að hreyfa sig og hann telur að það sé lykillinn að almennt góðri heilsu hans. Hann tók til dæmis þátt í San Diego-maraþoninu árið 2006 og hljóp í mark með Bic Mac-hamborgara í höndunum – hvað annað?

Í viðtali við bandaríska fjölmiðla í tilefni af tímamótunum sagðist hann ætla að borða Bic Mac á hverjum degi þar til yfir lýkur.