Bubbi sneri baki við Megasi árið 1994

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segist hafa snúið baki við kollega sínum, tónlistarmanninum Magnúsi Þór Jónssyni, Megasi, árið 1994.

Frásögn Bergþóru Einarsdóttur í nýjasta tölublaði Stundarinnar í dag hefur vakið talsverða athygli. Í viðtalinu lýsti Bergþóra því að Megas hefði brotið gegn henni ásamt yfirmanni hennar árið 2004. Bergþóra kvaðst hafa lagt fram kæru gegn Megasi árið 2010 en fengið þau skilaboð frá lögreglu að brotið væri fyrnt.

Bergþóra sagði svo í viðtalinu að hún hafi síðar lesið textann við lagið Litla ljót, nafn sem Megas hafi kallað hana fyrir atburðinn, og séð þar hrópandi samsvörun við það sem hafi átt sér stað.

Kristlín Dís Ingilínardóttir, fyrrverandi blaðakona, steig fram á Twitter í dag og sagði að Megas væri stærsta dæmið um gerendameðvirkni heillar þjóðar. „Ótrúlegasta fólk sem kemur þessum manni til varnar þrátt fyrir allt sem hann hefur gert,“ sagði hún.

Færsla Kristlínar hefur vakið talsverða athygli. Bubbi Morthens leggur orð í belg og segir hann einfaldlega, án þess að útskýra frekar:

„Ekki telja mig með. Gekk burt 1994.“