Bubbi orð­laus vegna talninga­klúðursins: „Ég er niður­brotinn“

Bubbi Morthens er niður­brotinn og orð­laus vegna talninga­klúðursins í Al­þingis­kosningunum í ár. Hann segist aldrei hefðu trúað því að þetta gæti farið svona í kosningum hér­lendis.

„Þetta er orðið al­gjört … aumingja­þjóð­fé­lag. Ég hef trúað ýmsu upp á Ís­lendinga en ég hefði ekki trúað því að ó­reyndu uppá okkur að við gætum ekki haldið kosningar í þessu sam­fé­lagi. Ég verð að segja það. Ég er niður­brotinn.“

Þetta hefur Vísir eftir tón­listar­manninum. Hann segist hafa séð eitt og annað, tal um spilingu, einka­vina­væðingu. „En ég hefði aldrei trúað að þetta myndi raun­gerast með þessum hætti. Hélt að kosningarnar væru eitt­hvað sem mætti treysta.“

Hann segir ó­trú­legt að menn tali um að brjóta lög þar sem hefð sé fyrir því. „Hvar annars staðar í hinum sið­menntaða heimi nema á Ís­landi kæmi svona fram og það er ekki einn þunga­vigtar­maður í ís­lenskri pólitík þannig séð sem stígur fram og segir: Þetta er ekki boð­legt. Það þarf að kjósa aftur og ég er búinn að missa trúna á hvernig við stöndum að kosningum. Ég á ekki orð, þó að ég sé með eitt­hvað gas­pur. Ég eigin­lega orð­laus.“

Hentar stjórnar­flokkunum að sega ekkert?

Þá spyr Bubbi sig hvers vegna stjórnar­flokkarnir tjái sig ekkert um málið.

„Og enginn stígur fram nema gamli karate­meistarinn Karl Gauti Hjarta­son sem kærir! Að for­menn flokkanna hafi ekki stigið fram og sagt, þetta er ekki í lagi, það slær mig illa. Þá fer maður að hugsa: Eru þau bara kampa­kát og glöð með þetta? Af því að það hentar í það skiptið?“