Hringbraut skrifar

Bubbi: „hann snart hjarta mitt. við komum og við förum“

26. febrúar 2020
16:01
Fréttir & pistlar

„Raggi Bjarna. Við vorum hópur af krökkum að leika okkur úti um kvöld. Sól og sumar. Kvöldsólin sindraði á gluggum blokkanna í Gnoðarvoginum. Einn gluggi var opinn og útum hann barst lag og ein línan í textanum var endurtekin:

Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.“

Þetta segir Bubba Morthens en hann minnist stórsöngvarans Ragnars Bjarnasonar eða Ragga Bjarna. Bubbi segir:

„Röddin var svöl, mjúk og karlmannleg. Þarna heyrði ég í Ragga Bjarna í fyrsta skipti og árið var 1963. Síðan sá ég hann oft sem unglingur í Vogunum því þar bjó hann um tíma. Og hann var stjarna í augum mínum.“

Bubbi og Raggi Bjarna kynntust árið árið 1981 og tókst strax með þeim vinskapur. Bubbi heldur áfram:

„Hann hafði einskonar tímalausa áru yfir sér þannig að ég fann aldrei fyrir því að það væri 25 ára aldursmunur á okkur. Sem söngvari var Raggi einstakur, hafði sviðskraft sem var einstakur og svo sterk var ára hans að um leið og hann steig á sviðið var sviðið hans. Haukur Morthens og hann bera höfuð og herðar yfir alla þá söngvara sem hafa komið og farið hér á landi. Báðir höfðu svo afgerandi höfundareinkenni í söng sínum að engu er við að jafna. Raggi var alltaf brosandi og áhugasamur um annarra hag.“

Bubbi bætir við að þegar þeir hafi hist á förnum vegi hafi Raggi Bjarna verið forvitinn um hvað hann væri að fást við.

„Saga íslenskrar dægurtónlistar er saga Ragga. Hann byrjaði að spila 15 ára með pabba sínum sem var af fyrstu kynslóð íslenskra dægurtónlistarmanna,“ segir Bubbi og heldur áfram:

„Raggi Bjarna er í lífi mínu eins og málverk sem hefur alltaf verið fyrir sjónum mínum. Raggi Bjarna er í blóði mínu og hefur verið þar í 57 ár.“

Bubbi segir Ragga Bjarna hafa verið stórkostlegan listamann.

„Sem söngvari var hann röddin okkar sem kynslóð eftir kynslóð féll fyrir. Hann var ekki með bestu tæknina, söng ekki hæstu nóturnar, en enginn annar þá eða nú hafði eða hefur það sem hann hafði, þennan alþýðuþokka, mildi, svalheit og sjarma, og hann hélt röddinni allt til loka.“

Þá segir Bubbi að lokum:

„Ferill hans er svo magnaður, svo einstakur að maður getur ekki annað en verið óendanlega þakklátur fyrir að hafa verið samtíða honum. Ég elskaði listamanninn Ragga Bjarna eins og við öll. Hann snart hjarta mitt. Við komum og við förum.

Raggi Bjarna, takk fyrir mig.“