Brynleifur: „Þetta er komið út í algjöra þvælu“ – Gangur lífsins að fólk veikist og deyi

„Þetta er komið út í algjöra þvælu,“ segir Brynleifur Siglaugsson húsasmíðameistari í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar skrifar Brynleifur um sóttvarnaraðgerðir íslenskra yfirvalda og þykir augljóslega nóg um. Í grein sinni segist Brynleifur hafa ferðast til nokkurra landa á þessu ári og ber hann aðgerðirnar saman við aðgerðirnar hér á landi.

„Ofsahræðsla og ábyrgðarleysi er það sem mér finnst einkenna aðgerðir íslenskra stjórnvalda þessa dagana. Ábyrgðarleysi, þar sem stjórnvöld fara í einu og öllu að ráðum æviráðinna embættismanna og munu ávallt geta fríað sig allri ábyrgð á afleiðingum aðgerðanna með því að benda á að þau hafi farið að ráðum sinna bestu sérfræðinga. Ofsahræðslan sést best á nýjasta útspili þeirra varðandi landamæri,“ segir hann í grein sinni.

Brynleifur bendir á að hann hafi ferðast til sex landa á árinu og hvergi þurft að fara í sóttkví nema á Íslandi. Í byrjun janúar flaug hann til Hollands og segir hann að höfðað hafi verið til almennrar skynsemi um að fólk sætti sóttkví ef það fyndi til Covic-einkenna og færi sjálfviljugt í próf.

„Þaðan flaug ég til Nairobi í Kenya. Til að komast um borð í vélina þangað þurfti ég að framvísa neikvæðu PCR-prófi, ekki eldra en 96 klst. gömlu. Þegar til Kenya var komið var lífið nánast eðlilegt, fólk þvoði sér um hendur áður en það fór í verslanir og var stöku sinnum einnig hitamælt. Annars gekk lífið að mestu sinn vanagang og grímunotkun var ekki beint tekin hátíðlega.“

Brynleifur ferðaðist svo aftur til Hollands en þá var búið að taka upp þá reglu að til að komast inn þyrfti neikvætt próf, ekki eldra en þriggja sólarhringa. Prófið var tekið í Nairobi og sýnt við komuna til Hollands. Svo var flogið til Íslands þar sem við tók skimun, fimm daga sóttkví og önnur skimun.

„Næst var það Lettland, til að komast þangað þurfti PCRpróf ekki eldra en 72 klst. gamalt, engin sóttkví eða aðrar hindranir þar. Eftir vikudvöl þar flaug ég á Schipol aftur og til að komast þangað þurfti PCR-próf ekki eldra en 72 klst. ásamt skyndiprófi sem var tekið á flugvellinum í Riga. Þegar til Schipol var komið var ekki beðið um nein skjöl eða fólki skipað í sóttkví, heldur aftur höfðað til skynsemi fólks. Eftir það ók ég um Holland, Þýskaland og til Póllands og til baka án nokkurra vandræða,“ segir Brynleifur og bætir við:

„En þá var komið að heimför, nýjar reglur segja mig eiga að mæta með PCR-próf til að geta flogið til Íslands, þar við lendingu á ég að taka annað, sitja svo heima í fimm daga og taka að lokum þriðja prófið hvort sem ég finn til einkenna eður ei. Að það skuli ekki vera nóg að taka þetta próf fyrir brottför til Íslands og halda sig svo til hlés fram að öðru prófi sem væri fimm dögum síðar skil ég engan veginn.“

Brynleifur er þeirrar skoðunar að allt sé þetta komið út í algjöra þvælu og virðist helst miðast að því að halda hinum ofsahræddu rólegum á meðan atvinnustarfsemi blæðir út.

„Að láta embættismenn, sem að mínu mati veljast oftast í þau störf vegna getuleysis til að vinna á almennum markaði, greindarskorts, og hafa oftast ekki snefil af verksviti, setja reglur sem síðan kemur algjörlega ábyrgðarlaus ráðherra, sem þeir eru allir, alltaf á Íslandi, og samþykkir ávallt allt án athugasemda, er galið! Í byrjun „farsóttarinnar“ var helsta áhyggjuefnið að ekki væru til nægilega margir líkpokar á landinu, síðan voru pantaðir með hraði nokkrir tugir öndunarvéla sem eru allar enn ónotaðar. Auðvitað hefur fólk veikst, það er gangur lífsins. Fólk hefur einnig látist. Það er líka gangur lífsins. En ég hef ekki rekist á eina einustu grein eða viðtal við neinn úr þeim yfirgnæfandi meirihluta sem hefur veikst lítillega af Covid og náð sér, eingöngu fréttir af fárveiku fólki. Það er óttinn sem á að stjórna, hræðslan við það óþekkta. Þannig er lítið mál að hafa heilu þjóðirnar að fíflum.“

Brynleifur fer um víðan völl í grein sinni og gagnrýnir til dæmis þær viðbótarreglur, ef svo má segja, sem eru í gildi á landamærunum.

„Til dæmis má ég, þegar ég kem heim úr einni af mínum stórhættulegu utanlandsferðum, ekki fá fjölskyldumeðlim sem býr með mér til að sækja mig á flugvöllinn. O nei, það ku vera lögregla sem skráir niður bílnúmer til að tryggja að enginn brjóti reglurnar,“ segir hann og bætir við að það sé í raun fáránlegt að hans nánustu megi ekki hitta hann fyrir utan Leifsstöð en megi á sama tíma búa með honum í sóttkví og sinna sínum venjulegu störfum.

„En á sama tíma á ég, fullfrískur einstaklingur, að sitja heima, aðgerðalaus í fimm daga án þess að finna fyrir neinum flensueinkennum. Ég má fara í göngutúra, ekki aka um einn á bíl, sennilega eru rökin þau að ef ég lendi í umferðaróhappi geti ég mögulega smitað björgunaraðila, en embættismennirnir hafa greinilega ekki áttað sig á að það er líka stundum ekið á gangandi vegfarendur,“ segir Brynleifur sem endar grein sína á þessum orðum:

„Svo voru það hinar stórkostlegu jólakúlureglur, þá máttu allt að 15 óskyldir og ótengdir aðilar hittast á veitingastöðum en einungis 10 í heimahúsi. Hvort er nú auðveldara að rekja ferðir 15 ótengdra aðila eða fjölskyldumeðlima og vina ef einhver skyldi nú finna fyrir flensunni? Svo nú skuluð þið hlýða Víði og veita Þórólfi fullkomið frelsi til að setja okkur reglur um grímunotkun í veirulausu umhverfi. Alls ekki mótmæla eða vera á annarri skoðun, það er glæpur!“