Brynjar segist vera kominn með nýja vinnu

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun væntanlega ekki sitja lengi auðum höndum eftir að ferli hans á þingi lýkur.

Brynjar tilkynnti um helgina, eftir að niðurstöður prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lágu fyrir, að hann myndi kveðja sáttur eftir að hafa setið á þingi síðan 2013. Brynjar sóttist eftir 2. sætinu en endaði í 5. sætinu sem gæti að vísu vel komið honum á þing.

Brynjar skrifaði kveðju til íslenskra sjómanna á Facebook-síðu sína í gær í tilefni sjómannadagsins. „Þið lyppist aldrei niður við mótlæti, eins og sumir,“ sagði Brynjar.

Vinkona Brynjars á Facebook spurði hann svo í athugasemd við færsluna hvort hann vantaði vinnu. Óhætt er að segja að Brynjar hafi ekki misst húmorinn þó að niðurstaða prófkjörsins um helgina hafi ekki verið honum hliðholl. Brynjar svaraði spurningunni svona:

„Nei, er búinn að stofna Only Fans síðu.“