Brynjar segist sjá þennan í öllum fjölmiðlum: „Svo fara allir að vorkenna frekjunni“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður ráðherra og fyrrverandi þingmaður, ræðir „Freka kallinn“ í færslu á Facebook-síðu sinni, en hann er orðinn víðfræg sögupersóna í skrifum Brynjars.

„Áður hefur komið fram að ég mjög áhugasamur um Freka kallinn, sem nú er orðinn kynlaus eins og allt annað.“ skrifar Brynjar og segir Freka kallinn þjást af vanlíðan þegar hann nær ekki sínu fram, en þó segir hann að hægt sé að skipta þeim í tvo hópa:

„Freki kallinn þjáist af vanlíðan og pirringi þegar hann nær ekki öllu sínu fram. Eftir mikla rannsóknarvinnu hef ég komist að því að það eru til tvær týpur af Freka kallinum. Sá sem bítur á jaxlinn og heldur áfram frekjuköstunum og kalla má heiðarlega frekju og hinn sem er fórnarlamb og kennir öðrum um vanlíðan sína sem fylgir þegar allt er ekki eftir þeirra höfði.“

Brynjar segir síðarnefnda Freka kallinn ansi áberandi í fjölmiðlum og heldur því fram að viðkvæmni hans verði til þess að allir fari að vorkenna honum.

„Sá síðarnefndi hefur sótt mjög í sig veðrið í seinni tíð. Nú opnar maður ekki fjölmiðil án þess að rekast á viðtal við frekjur, jafnvel landsþekktar frekjur. Þær eiga það sameiginlegt að líta á það sem andlegt ofbeldi og einelti ef allir tipla ekki á tánum kringum það og jafnvel stigi niður fæti gegn frekjunni og yfirganginum. Svo fara allir að vorkenna frekjunni.“