Brynjar sár og svekktur: „Mun aldrei aftur tala við Einar og Jón“

Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segist hafa orðið fyrir miklum von­brigðum með bók Einars Kára­sonar um at­hafna­manninn Jón Ás­geir Jóhannes­son.

Bókin sem um ræðir, Máls­vörn, kemur út á morgun en um er að ræða eins­konar upp­gjör Jóns Ás­geirs við hrunið og eftir­mála þess. Einar Kára­son skrifar bókina.

Brynjar tekur fram að hann hafi ekki lesið bókina en hann segist hafa séð á ein­hverjum vef­miðlinum að nafn hans er ekki að finna í nafna­skrá bókarinnar. Vísir birti í gær nöfn helstu per­sóna og leik­enda í bókinni og vísað í nafna­skrá bókarinnar og þar er ekki að finna nafn Brynjars.

„Ég, sem sat við hliðina á Jóni Ás­geiri vikum og mánuðum saman í réttar­sal í Baugs­málinu og var verjandi frænda flug­stjórans frækna, sem lenti þotunni á Hudson ánni. Veit að sumir eru lítt á­huga­verðir en er þetta ekki ein­hvers konar met?“

Brynjar var verjandi Jóns Gerald Sullen­berger í Baugs­málinu eins og margir muna, en upp­haf málsins má rekja til kæru Jóns Geralds á hendur Jóni Ás­geiri.

Brynjar er þekktur fyrir að bregða á leik á Face­book og hefur færslan komið ó­fáum vinum Brynjars til að brosa. Einn segir: „Sárt ertu leikinn Sámur fóstri“ og því svarar Brynjar með þessum orðum: „Já, mun aldrei aftur tala við Einar og Jón.“