Brynjar myndi frekar láta taka úr sér blóð en vera lógað

Brynjar Níelsson stakk niður penna á Facebook í dag og rekur fjölmörg atriði sem honum finnst bera vott um met í meðvirkni í íslensku samfélagi.

Hann segir meðvirknina orðna að einskonar konar dygðaskreytingu. „Þeir sem hafa ekki sannfæringu fyrir öllum sóttvarnaaðgerðum, heimsendi vegna loftslagsvár, feðraveldinu og banni gegn blóðmerahaldi þurfa helst að sæta útilokun og bannfæringu,“ segir Brynjar.

„Það hefur bara ein skoðun verið leyfð þegar kemur að sóttvörnum. Hún er sú að fylgja tillögum sóttvarnalæknis og helst ganga lengra. Flestir í þessum hópi koma úr röðum eftirlaunamanna og opinbera starfsmanna, sem ekki hafa orðið fyrir tekjutapi vegna sóttvarnaaðgerða, heldur þvert á móti,“ segir hann og nefnir einnig þá nýju kröfu um að opinberir starfsmenn fái sérstakar álagsgreiðslur vegna veirunnar.

„Hugur minn er ekki aðallega hjá opinberum starfsmönnum þrátt fyrir álag þar á bæ heldur þeim sem hafa orðið fyrir tekjutapi eða misst vinnuna og lífsviðurværið.“

Næst snýr Brynjar sér að loftslagsmálum sem hann segir farin að bera keim af bókstarfstrú.

„Ofstækið hefur náð völdum. Það eru allir sammála um þau markmið að draga úr úrgangi og mengun sem fylgir okkur. Ástæðulaust er samt að auka fátækt og hörmungar hundruð milljóna manna um allan heim í öllu ofstækinu“ segir Brynjar en færir sig svo yfir í feðraveldið.

„Er ekki viss um að Soffía frænka upplifi mikið feðraveldi á sínu heimili. Kannski býr hún með einhverri lurðu,“ segir Brynjar sem sjálfur telur kynin praktísk. Þau hafi hagað málum eftir því hvað hefur hentað á hverjum tíma í samfélaginu til að halda heimili og ala upp börn.

Því næst er komið að blóðmerahaldi hjá Brynjari, sem hann segist þó ekki hafa sterkar skoðanir á:

„Nú er allt komið á hvolf vegna þess að einhver fór ekki að reglum við blóðmerahald og öll blóðtaka úr merum orðið að dýraníð. Þess vegna þarf að banna slíkt. Ég hef ekki sterkar skoðanir á blóðmerahaldi en get þó sagt að ef ég væri meri myndi ég frekar vilja láta taka blóð úr mér reglulega en að verða lógað. Svo hefur verið tekið úr mér blóð reglulega áratugum saman með tilheyrandi yfirliði og óþægindum. En það var faglega gert og af umhyggju. Það hlýtur að vera hægt að gera það sama í blóðmerahaldi,“ telur Brynjar.

Að lokum segir Brynjar þetta:

„Þessi sunnudagshugvekja er til að vekja okkur til umhugsunar og benda á mikilvægi yfirvegaðrar og málefnalegrar umræðu, sem er forsenda þess að búa saman í lýðræðislegu og siðuðu samfélagi. Útilokunarmenning og bannfæringar leiða aldrei til góðs.“