Brynjar lenti í vand­ræðum á dans­gólfinu á árs­há­tíð lög­fræðinga: „Ég skrifa þetta á Lækna- Tómas“

Brynjar Níels­son, að­stoðar­maður dóms­mála­ráð­herra, lét sig ekki vanta á Laga­daginn sem er eins konar árs­há­tíð lög­fræðinga og lög­manna, og fór fram á föstu­daginn.

Hann lýsir árs­há­tíðinni með skemmti­legum pistli á Face­book er hann reyndi að dansa við eigin­konu sína.

„Ég fór á dansi­ball með Soffíu í gær­­kvöldi í fyrsta sinn í langan tíma, sem var hluti af Laga­­deginum svo­kallaða, þar sem allir gáfuðustu lög­­fræðingar landsins koma saman og gera sér glaðan dag. Þarna voru stjörnu­lög­­maðurinn og Gucci og Armani lög­­maðurinn, sem var með sól­­gler­augu í myrkrinu, og allt upp í virðu­­lega dómara á öllum dóm­­stigum. Ég ætlaði að draga dóms­mála­ráð­herra með mér sem hélt nu ekki. Hann væri nú kaf­­færður af lög­­fræðingum allan daginn í ráðu­neytinu og ætlaði því ekki að eyða kvöldinu með slíku fólki,“ skrifar Brynjar á Face­book en hann hefur í­trekað kallað eigin­konu sína Arn­fríði Einars­dóttur, lands­réttar­dómara, Soffíu.

„Ég var með nokkurn kvíða fyrir dansi­ballinu. Ég hafði ekki farið í spari­­­fötin í langan tíma. Ein­hverra hluta vegna pössuðu fötin illa og eina bindið sem ég fann var komið með myglu. En þrátt fyrir þetta mót­læti reimdi ég á mig dans­­skóna og ætlaði að snúa Soffíu hægri vinstri á dans­gólfinu og taka alla gömlu stæ­lana. En þegar til­kom var þrek­­leysið al­­gjört og ég rétt hafði af einn vanga­dans með harm­­kvælum. Ég skrifa þetta á Lækna- Tómas sem skar úr mér hluta af lunganu í lok síðasta árs,“ skrifar Brynjar.

Undir færsluna skrifar vin­kona Brynjars: „Það sem er á hana Soffíu lagt“ og svarar Brynjar um hæl: „Já, er ekki kominn tími til að hún fái Fálka­orðuna?“