Brynjar látinn 32 ára að aldri: „Stórt skarð sem erfitt verður að fylla“

Brynjar Gunnarsson, frjálsíþróttamaður, þjálfari og íþróttafræðingur, er látinn eftir erfiða baráttu við krabbamein. Brynjar lést á skírdag, 32 ára að aldri.

Brynjars er minnst með hlýjum orðum á Facebook-síðu Frjálsíþróttadeildar ÍR, þar sem hann var í miklum metum.

Í færslunni kom fram að Brynjar hefði verið ungur að árum þegar hann byrjaði að æfa frjálsar hjá Frjálsíþróttadeild ÍR. Keppti hann með liðinu og unglingalandsliði Íslands til fjölda ára. Hann starfaði óslitið með deildinni alla tíð, fyrst sem efnilegur íþróttamaður og svo sem frábær þjálfari. Brynjar var menntaður íþróttafræðingur og starfaði við kennslu við góðan orðstír.

„Brynjar var einstök manneskja og þjálfari, sem náði frábærum árangri og hafði mjög mikla ástríðu fyrir þjálfun og velgengni allra sinna íþróttamanna og í raun allra íþróttamanna. Hann átti vináttu allra þeirra sem hann þjálfaði og starfaði með og í kringum Brynjar var alltaf gleði og jákvæðni og hann brann fyrir frjálsar og ÍR. Þrátt fyrir veikindin sem Brynjar glímdi við þá þjálfaði hann með góðum árangri allt fram á síðasta dag og skilur hann eftir sig stórt skarð sem erfitt verður að fylla.“

Fjölskyldu Brynjars eru sendar innilegar samúðarkveðjur og ljóst að minningin um hann mun lifa um ókomna tíð hjá þeim sem hann þekktu.

Brynjar steig fram í viðtali við RÚV árið 2018 þar sem hann sagði sögu sína af miklu æðruleysi. Brynjar greindist með sjaldgæfa tegund krabbameins árið 2014, um það leyti sem hann var í mastersnámi í íþróttavísindum í HR. Þrátt fyrir erfið veikindi hélt Brynjar áfram að þjálfa og sá hann til dæmis um þjálfun Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur, Evrópumeistara og Ólympíumeistara ungmenna, og Tiönu Óskar Whitworth, Íslandsmeistara og Íslandsmethafa.

Í viðtalinu sagði Brynjar að þjálfunin skipti hann miklu máli. „Svona á þeim tímum þegar maður er að hugsa mikið um þetta allt þá gleymir maður þessu samt þegar maður kemur hingað og ég held að það sé rosalega mikilvægt.“

Á skírdag lést vinur okkar og félagi Brynjar Gunnarsson eftir erfiða baráttu við krabbamein. Brynjar byrjaði ungur að...

Posted by Frjálsíþróttadeild ÍR on Mánudagur, 5. apríl 2021