Brynjar kemur kirkjunni til varnar: „Sorg­legt að sjá Svein Andra reyna upp­hefja sjálfan sig“

Brynjar Níels­son, frá­farandi þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins er allt annað en sáttur með Hæsta­réttar­lög­manninn Svein Andra Sveins­son eftir skrif hans um þjóð­kirkjunni í gær. Sveinn Andri gerði þar lítið úr kristni trú og vildi hætta að fjár­magna þjóð­kirkjuna með skatt­peningum.

„Mér fannst heldur sorg­legt að sjá minn gamla kollega og vin, Svein Andra, reyna að upp­hefja sjálfan sig með því að gera lítið úr kristni og kirkju. Það var lítil reisn yfir því og raun aumkunar­vert. Eitt­hvað svo ESB legt, sem er skrítið því kristni er það eina sem lönd Evrópu eiga öll sam­eigin­legt. "Við í Við­reisn erum víð­sýn" er þekktur frasi þar á bæ en er greini­lega merkingar­laus,“ skrifar Brynjar.

„Ég geri enga at­huga­semd við þá skoðun Sveins Andra að að­skilja eigi ríki og kirkju enda hefur það verið gert nánast að fullu. Ef Sveinn Andri væri sam­kvæmur sjálfum sér hefði hann bætt við í færslu sinni að að­skilja ætti ríkið við hluta­fé­lagið í Efsta­leiti. Öfugt við kirkjuna er ekkert stjórnar­skrár­á­kvæði um að okkur sé skylt að styðja og vernda það kompaní,“ heldur Brynjar á­fram.

„Al­þjóða­hyggju­menn og ESB sinnar eiga það flestir sam­eigin­legt að bera lítið skyn­bragð á manninn og eðli hans. Þess vegna er ESB dauða­dæmt í nú­verandi mynd. Við erum alla ævi í stöðugri glímu við lífið og í þeirri bar­áttu er okkur nauð­syn­legt að sækja styrk í æðri mátt. Þar kemur trúin og bænin sterk inn. Við erum nefni­lega ó­full­komnar til­finninga­verur en ekki rúðu­strikað excelskjal.“

Þá segir að Brynjar að með því að ýta kristinni trú úr sam­fé­laginu með kerfis­bundnum hætti erum við ekki bara að grafa undan menningu okkar og arf­leifð heldur að veikja mögu­leika okkar á að takast á við mót­læti í lífinu.

„Það kemst enginn í gegnum lífið án þess að lenda í ein­hverju and­streymi og mót­læti. Held að við getum ekki enda­laust treyst á læknis- og lyfja­fræðina í þeim efnum. Þetta eiga allir að vita sem komnir eru til ára sinna, Sveinn Andri, og skiptir ekki máli hvort þeir eru sterkir eða veikir í trúnni. Sam­kvæmt hlut­lægum mæli­kvörðum telst ég örugg­lega veikur í trúnni eða jafn­vel trú­laus. En ég ætla að leggja samt traust mitt á Jesú og fé­laga frekar en Von der Leyen, Macron og Merkel eða aðra í yfir­stéttar elítunni í Brussel.“