Brynjar kemur Katrínu til varnar og hjólar í Bubba, Hall­grím og Illuga

Brynjar Níels­son, fyrr­verandi þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, kemur Katrínu Jakobs­dóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri-grænna, til varnar á fés­bókar­síðu sinni í dag.

„Reiði og heift er nokkuð á­berandi hjá þeim sem telja sig vera betri, rétt­látari og sann­gjarnari en aðrir. Nú beinist reiðin einkum að Katrínu Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, og er henni ekki vandaðar kveðjurnar þótt hún hafi náð fram meira af stefnu­málum vinstri manna en aðrir. Meira að segja pólitískum and­stæðingum hennar, eins og mér, þykir nóg um þessar ó­vönduðu kveðjur,“ skrifar Brynjar.

„Að því að ég hef meira inn­sæi og er næmari á fólk en aðrir, og eru Bubbi, Illugi Jökuls og Hall­grímur Helga þar með taldir, get ég sagt ykkur heil­mikið um Katrínu Jakobs­dóttur. Það helsta að hún er afar geðs­leg og um­fram allt vel gefin, þokka­lega skyn­söm og með góða dóm­greind þegar á reynir,“ bætir Brynjar við

Hann segir þó að Katrín sé alls ekki full­komin. Hún er full bros­mild og hress á köflum fyrir hans smekk og svo er hún allt of mikill sósíal­isti að mati Brynjars.

„Sem er kannski ekki bein­línis galli en verður að teljast sér­stakt miðað við aðra eigin­leika. Þessi greining mín á for­sætis­ráð­herra er vísinda­legri og ná­kvæmari en þeirra sem þykjast vita hvernig veðrið og hita­stigið verður á jörðinni næstu hundrað árin og jafn­vel lengur.“