Brynjar kemur Haraldi til varnar: „Gerði ekkert annað en að segja satt“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir gagnrýni á ákvörðun Haraldar Benediktssonar að taka ekki öðru sætinu í Norðvesturkjördæminu sé til þess fallið að hafa áhrif á niðurstöður prófkjörsins.

Mikil spenna er í kringum prófkjör Sjálfstæðismanna í kjördæminu um helgina. Þar ætlar Haraldur að halda fyrsta sætinu, við hann keppir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra og varaformanni flokksins, sem er nú í öðru sæti.

Margir Sjálfstæðismenn sem og aðrir hafa gagnrýnt Harald fyrir að neita að taka annað sætið ef Þórdís hefur betur. Þar á meðal Ás­laug Hulda Jóns­dóttir, bæjar­full­trúi flokksins í Garða­bæ, sem segir á Facebook:

„Haraldur hefur senni­lega lesið stöðuna þannig að hann myndi ekki ná fyrsta sætinu. Það ætti ekki að koma á ó­vart þar sem maðurinn gefur kost á sér gegn öflugum vara­for­manni og ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins.“

Þá hefur leikkonan Edda Björgvinsdóttir lýst yfir stuðningi við Þórdísi:

„Hversu margar risaeðlur fylla þennan flokk? Nú skulum við konur taka höndum saman og passa uppá kjarkmiklu konurnar sem nenna að taka til í stjórnmálaflokkunum,“ segir Edda.

Brynjar kemur Haraldi til varnar á Facebook.

„Ég undrast mjög ofsafengin viðbrögð nokkurra flokksystkina minna við heiðarlegu svari Haraldar Benediktssonar um að hann léti gott heita ef honum yrði hafnað í prófkjöri sem áframhaldandi oddvita sjálfstæðismanna í Norðvestur kjördæmi,“ segir Brynjar. „Þetta hefur legið fyrir í marga mánuði og verið á flestra vitorði. Þessi upphlaup núna eru augljóslega til þess að hafa áhrif niðurstöðu prófkjörsins. Freki kallinn í þessari sögu er ekki Haraldur Benediktsson. Hann gerði ekkert annað en að segja satt aðspurður. Það er allur glæpurinn.“