Brynjar fór í skimun í morgun: „Nánast rúmliggjandi af sársauka“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann hafi farið í sína fyrstu skimun í morgun. Brynjar er þekktur spéfugl og lætur oft ýmislegt flakka á Facebook. Í færslu sinni segir hann:

„Fór í mína fyrstu skimun í morgun. Nú tveim tímum síðar er ég nánast rúmliggjandi af sársauka efst í nefi alveg við framheilann auk kvíðaverkja. Kannski er skýringin sú að ég er karlmaður og þingmaður að auki. Það er smámál að gleypa nikotínpúða miðað við þessi ósköp.“

Eins og Hringbraut greindi frá á dögunum gleypti Brynjar nikótónpúða í gáleysi sínu og hafði hann áhyggjufullur samband við bráðamóttökuna í kjölfarið.

Brynjar fer svo út í öllu alvarlegri tóna, umræðuna um sóttvarnarhús en eins og kunnugt er úrskurðaði héraðsdómur í gær að óheimilt væri að skikka fólk frá áhættusvæðum í fimm daga sóttkví í þar til gerðu sóttvarnarhúsi. Brynjar skýtur létt á Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmann sem hafði sig nokkuð í frammi í umræðunni um helgina og sagðist litla samúð hafa með þeim sem þurfa að dvelja í sóttkví innilokaðir í fimm daga.

„Ég ætla ekki að núa þeim um nasir, og allra síst stjörnulögmanninum með ákveðnum greini, vegna niðurstöðu héraðsdóms um svokallað sóttvarnahús. Við vitum ekki hvernig það mál endar á æðri dómstigum. En ég er enn að klóra mér í hausnum yfir þeim sem telja slíkt fangelsi vera lúxushótel og ætla að berjast fyrir því að Alþingi breyti lögunum svo við getum áfram lokað inni ósmitað fólk í slíku húsi sem er með heimili hér á landi. Ég vissi ekki að meðalhófsreglan og stjórnarskráin væri bara upp á grín.“

Fór í mína fyrstu skimun í morgun. Nú tveim tímum síðar er ég nánast rúmliggjandi af sársauka efst í nefi alveg við...

Posted by Brynjar Níelsson on Þriðjudagur, 6. apríl 2021