Brynjar fékk erfið skila­boð frá yngri syni sínum: „Segja mætti að þetta sé kúgun aldarinnar“

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk afar óvænt skilaboð frá yngri syni sínum í vikunni. Hann segist hafa hlíft sonum sínum við því að segja opinberlega frá samskiptum þeirra á meðan pólitíska ferli hans stóð, þar til nú.

„Ég er ekki auðugur maður en á þó tvo syni sem ég hefði ekki viljað vera án. Ég hef núna verið í um 30 ár í stöðugri baráttu við þá um völd og áhrif innan fjölskyldunnar, þegar Soffía er ekki heima. Breytir engu þótt þeir séu löngu fluttir að heiman. Meðan ég var í pólitík hlífði ég þeim við að bera þessi átök á torg. Núna er breyttir tímar,“ skrifar Brynjar í vígahug í færslu á Facebook.

Þá segir hann að þeir feðgar hafi háð stöðugar baráttur í gegnum tíðina en nú hafi yngri sonurinn fyllt mælinn. „Ósvífni og hvers kyns kúgun hefur einkennt baráttu okkar feðgana. Allt hefur það þó verið innan marka eða þar til yngri sonur minn, sem heitir Helgi, hótaði því að láta barnabörnin tilvonandi heita Helgu Völu og Hallgrím, ef ég hætti í pólitík. Einhver myndi segja að þetta væri kúgun aldarinnar,“ segir Brynjar og vísar þar í Helgu Völu Helgadóttur þingmann Samfylkingarinnar og Hallgrím Helgason rithöfund.