Brynjar biðst afsökunar: „Það var óþarfi að gera lítið úr þeim“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lætur gamminn geysa reglulega á Facebook og í dag biður hann áhrifavalda landsins afsökunar.

Eins og kunnugt er endaði Brynjar í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á dögunum og sagði við það tilefni að hann ætlaði að hætta í pólitík og snúa sér að einhverju öðru.

Þegar Brynjar var spurður hvað hann ætlaði sér eiginlega að gera eftir þingstörfin sagðist Brynjar þegar hafa opnað OnlyFans-síðu. Hann dró svo í land með það í færslu á dögunum:

„Ég er ekki aðdáandi léttklæddra áhrifavalda og væri því líklegri til að stofna síðu sem sýndi líkþorn eftirlaunaþega. Og ég er nokkuð viss um að það væri skemmtilegra að fara í partý með amish fólki en með íslenskum áhrifavöldum. Amish fólkið lifir þó í einhverjum raunveruleika.“

Nú hefur Brynjar skrifað enn eina færsluna þar sem hann viðurkennir að hafa gengið of langt með orðum sínum um áhrifavalda.

„Ég bið íslenska áhrifavalda afsökunar á síðustu færslu minni hér á fésbókinni. Það var óþarfi að gera lítið úr þeim og reyna að vera fyndinn á þeirra kostnað.“

Gústaf Níelsson, bróðir Brynjars, sem er ekki síður þekktur en bróðir sinn fyrir að hafa munninn fyrir neðan nefið, svarar færslu Brynjars með þessum orðum:

„Var eitthvað missagt sem þarf að biðjast afsökunar á? Það finnst mér ekki, heldur þvert á móti.“