Brynjar aldrei orðið eins hræddur: „Slíkur var hraðinn að hann sést eingöngu í teiknimyndum“

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður, er þegar farinn að huga að jólunum þó enn sé mánuður til stefnu. Brynjar er í skemmtilegu viðtali í jólablaði Morgunblaðsins þar sem hann fer um víðan völl og segir frá ýmsum venjum og hefðum sem við koma jólunum.

Brynjar rifjar einnig upp skemmtilega sögu frá því hann var ungur. Brynjar segist almennt ekki muna margar sögur, enda haldinn alvarlegum athyglisbresti, en eina sögu man hann þó vel vegna þess að hann hefur aldrei orðið eins hræddur á ævinni og þá.

„Ég trúði á tilvist jólasveinsins fram á grunnskólaaldur en var alltaf skíthræddur við hann, og enn hræddari við foreldra hans. Svo var það eitt sinn í jólaveislu á heimilinu að ég og frændi minn vildum fara út að leika okkur. Það var nefnilega svo gott að renna sér á blankskóm á svellinu efst í Barmahlíðinni. Móðir mín vildi ekki að fimm ára drengir væru úti í myrkrinu seint um kvöld og sagði að jólasveinninn tæki okkur ef við færum út. Við létum ekki segjast og fórum út.“

Segja má að versta martröð þeirra frænda hafi orðið að veruleika þegar jólasveinninn birtist skyndilega og gekk upp götuna á móti þeim.

„Greip um sig slík hræðsla að við náðum að snúa við á miðju svellinu og reykspóla upp götuna á nýju Íslandsmeti barna í spretthlaupi. Slíkur var hraðinn að hann sést eingöngu í teiknimyndum. Við hlupum síðan niður Mávahlíðina og ætluðum að laumast bakdyramegin heim.“

Ekki tók betra við þar því þeir mættu jólasveininum lafmóðir á næsta horni.

„Við lyppuðumst niður og sáum sæng okkar upp reidda. Nú myndi Grýla búa til súpu úr okkur. Jólasveinninn reyndist hins vegar hinn besti maður og spurði hvort við vissum hvar Stefán og Guðrún byggju í götunni. Við löbbuðum þá rólegir heim þótt buxurnar væru blautar og frost úti.“