Brynjar á leið í sterameð­ferð meðan bróðir hans bíður eftir hjarta­þræðingu: „Tekur mjög á Soffíu að sitja með okkur báða“

Brynjar Níels­son, að­stoðar­maður dóms­mála­ráð­herra, greinir frá því á Face­book að hann mun á morgun byrja í strangri sterameð­ferð.

„Ég muni verða upp­­­stökkur og úr­­illur, fitna skart og gæti orðið soldið of­­virkur. Soffía sagði nú við lækninn að hún sæi nú ekkert nýtt í þessu nema þá of­­virknina og hún myndi fagna henni og vonaðist þá til að ég myndi gera loksins eitt­hvað,“ skrifar Brynjar en hann kallar iðu­lega Arn­fríði eigin­konu sína Soffíu.

Hann segir hins vegar að það bætist grátt ofan á svart fyrir greyið eigin­konu sína að Gústi bróðir hans býr hjá þeim tíma­bundið.

„Bróðir minn, Gústaf, oftast nefndur okkar maður á Spáni, sem er tals­vert eldri en ég, býr hjá mér um stundar­­sakir. Hann er þó yngri en halda má af myndum. Það tekur mjög á Soffíu að sitja með okkar báða á heimilinu í einu og það er örugg­­lega ekki á færi nokkurs annars að lifa það af. Tveir ræningjar eru þó alla jafna auð­veldari við­fangs en þrír. En við bræðurnir erum hálf heilsu­lausir og þarf því að hafa meira fyrir okkur en ella,“ skrifar Brynjar.

„Gústi er soldið spes, eins og sagt var um skrítna fólkið í gamla daga. Hann er að bíða eftir að komast í hjarta­­þræðingu en hann situr bara við tölvuna og passar sig á að hreyfa sig ekki neitt nema þegar hann á erindi í ís­­skápinn eða nammi­skúffuna, sem er að vísu all­oft. Allar bjór­birgðir heimilisins eru þrotnar en hann telur sig vera að bjarga verð­­mætum því bjórinn sé að renna út á tíma. Ég held að það verði mjög mikil á­skorun fyrir lækna að þræða þetta hjarta,“ skrifar Brynjar.

„Eftir að hafa búið með Gústa í nokkra daga er ég enn sann­­færðari en áður að sagan sé sönn um að pabbi hafi fundið hann í vöggu á rusla­haug í sígauna­þorpi á Ítalíu á sínum tíma,“ skrifar Brynjar að lokum.