Brynja hætti í bankanum og gerðist útfararstjóri: rukkar aldrei fyrir útfarir barna - „það hafa alveg trillað tár“

Brynja Gunnarsdóttir var aðstoðarkona Björgólfs Guðmundssonar þáverandi eiganda Landsbankans. Þá starfaði hún í 13 ár í Landsbankanum en þar var hún yfir kvartanadeild þjónustuvers bankans sem sett var á laggirnar eftir hrun. Eftir öll þessi ár var hún orðin þreytt á að slökkva elda, sagði upp störfum og gerðist útfararstjóri. Brynja var í helgarviðtali Fréttablaðsins þar sem hún rakti sögu sína.

„Ég viðurkenni að hafa verið orðin svolítið þreytt á að vera sífellt að slökkva elda,“  segir Brynja í samtali við Fréttablaðið um starf sitt innan bankans. Fljótlega eftir uppsögn rakst hún á Hörpu, sem er annar eigandi útfararstofunnar Hörpu í Garðabæ. Harpa var á leið í frí og eitt leiddi af öðru þar til Brynju var boðið að starfa á stofunni. Þegar þjálfuninni lauk keypti Brynja sig inn í reksturinn og hóf störf í nóvember á síðasta ári.

Hluti starfsins er að undirbúa hinn látna fyrir kistulagningu og jarðarför. Það er hlutverk hennar að þvo hár, snyrta, klæða og búa um hinn látna.

„Ég viðurkenni alveg að fyrstu tvö skiptin reyndust mér svolítið erfið enda líkið mjög kalt. En þetta er eitthvað sem venst þó að tilfellin séu misjöfn og aðstæður miserfiðar. Það erfiðasta er þegar um er að ræða börn,“

segir Brynja í samtali við Fréttablaðið.

Brynja bætir við að útfararstjórar séu mannlegir. Hún segir:

„Það hafa alveg trillað tár þó maður sé ekki hágrátandi við athöfn. Við rukkum aldrei fyrir útfarir barna, það er einfaldlega heiður að geta aðstoðað við svo erfiðar stundir.“

Hér má lesa viðtalið í heild sinni.