Hringbraut skrifar

Bryndís Hlöðversdóttir er dýr farandgripur vinstri manna

20. nóvember 2019
18:56
Fréttir & pistlar

Enn á ný útvega forystumenn vinstri flokkanna Bryndísi Hlöðversdóttur mikilvægt embætti í kerfinu. Hún hefur ítrekað verið færð milli stórra embætta alveg frá því hún vék af Alþingi til að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæti tekið sæti þar sem aðalmaður. 

Upphaf þessa hringls með starfsferil Bryndísar er það að Samfylkingin ætlaði sér stóra sigra með því að stilla Ingibjörgu Sólrúnu upp í „baráttusæti“ á lista sínum í Reykjavík. En útspilið heppnaðist ekki betur en svo að sjálft drottningin náði ekki kjöri til Alþingis. Vandræðagangur Samfylkingarinnar vegna þessarar stöðu var alger því Ingibjörgu hafði verið stillt upp sem „forsætisráðherraefni“ og náði svo ekki kjöri. Hún varð ekki forsætisráðherra og verður það varla út þessu.

Samfylkingin þurfti að gera ráðstafanir til að koma Ingibjörgu inn á þing af varamannabekknum. Og þá voru góð ráð dýr því enginn nýkjörinna þingmanna flokksins í kjördæminu vildi víkja. Sem ekki var von. Eftir mikið þref tókst að fá Bryndísi Hlöðversdóttur til að fórna sér. Það var einkennileg ráðstöfun því hún var þá ungur og galvaskur þingmaður sem átti fullt erindi í þinginu. Bryndís var keypt í burtu og svo virðist sem enn sé verið að greiða það gjald sem um var samið árið 2005 þegar hún er nú skipuð í enn eitt embættið, ráðuneytisstjóri í sjálfu forsætisráðuneytinu.

Þegar Bryndís Hlöðversdóttir vék af þingi einungis 44 ára að aldri var hún ráðin í stöðu prófessors við Háskólann á Bifröst. Í framhaldi af því varð hún rektor sama háskóla. Trúlega einn fárra háskólarektora á Vesturlöndum sem hafa ekki doktorsgráðu. Bryndís varð formaður stjórnar Landsvirkjunar og þegar Ólafía Rafnsdóttir, samfylkingarkona varð formaður VR, gerði hún flokkssystur sína að formanni Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Því embætti gegndi hún einungis í tvo mánuði eða þar til hún var skipuð í stöðu starfsmannastjóra Landsspítalsns. Þá sagði hún af sér sem formaður lífeyrissjóðsins af vanhæfisástæðum.


Enn átti eftir að skipa Bryndísi í stórt embætti. Hún varð sáttasemjari ríkisins og hefur gegnt því embætti í nokkur ár og verið ágætlega liðin. En það virðist ekki hafa dugað til því nú skipar formaður Vinstri grænna hana í embætti ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Þá hittast þær stöllur úr Alþýðubandalaginu að nýju. Vonandi að þessi embættisskipan dugi til að ljúka sáttmálanum sem virðist hafa verið gerður við Bryndísi  Hlöðversdóttur árið 2005!

Þá vaknar sú spurning hver eigi að taka við hinu mikilvæga starfi sáttasemjara ríkisins. Vilji menn tryggja varanlegan ófrið á vinnumarkaði þá væri gott að geta leitað til Davíðs Oddssonar eða Kára Stefánssonar en þeir eru orðnir of gamlir fyrir embættið. En Ólína Þorvarðardóttir er á réttum aldri. Og einnig í réttum flokki.