Bryndís fékk bágt fyrir athugasemdina til Hönnu Bjargar – Sóley: „Nenni ekki meira rugli“

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir segir að mesta ofstæki í sögunni má rekja beina leið til feðraveldisins. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom með athugasemd:

„Getum við ekki notað annað íslenskt orð en feðraveldið? Stingur mig alltaf að setja fallega orðið faðir inn í þessa mikilvægu umræðu um mikið samfélagsmein,“ sagði Bryndís.

Þessi athugasemd féll ekki í kram netverja og má segja að Bryndís hafi fengið bágt fyrir.

Ein sagði:

„Æi Bryndís, nei. Patriarchy er hugtak sem þýðir feðraveldi. Orðið er ekki vandamálið og það gerir núll fyrir baráttuna að finna eitthvað orð sem gamlir Sjallakarlar þola að heyra. Vandinn er kúgunin og orðafælni er hluti af því. Þetta er mjög vont tíst. Tilvalið til förgunar.“

Bryndís var fljót að svara:

„Æi vinkona eigum við ekki bara að þora að taka umræðuna, þurfum ekki að vera sammála um allt en held að við séum sammála um mikilvægi þess að samfélagið segi NEI við kynferðisleguofbeldi og áreiti. Gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum og bæti sig sem samfélagsþegn.“

Borgarfulltrúinn fyrrverandi Sóley Tómasdóttir sagði: „Líka voða vont að hafa “auð” í nauðgun því öll hljótum við að vilja vera auðug!,“ sagði hún.

„Kannski er kaldhæðnin í svarinu mínu til komin af því eg hef átt 28364628 samtöl við karla sem setja orðið fyrir sig og nenni ekki meira rugli.“

Bryndís sagði að hún skildi pirringinn: „Langar að hrósa þér fyrir upplýsandi og málefnalega umræðu á síðustu vikum En ég tel samt að orð og orðanotkun sem særir geti dregið úr mætti og mikilvægi samfélagslegra breytinga.“

Sóley sagði þá: „Femínismi er ekki særandi. Hann er vissulega óþægilegur og krefst þess að við horfumst í augu við óþægilegar staðreyndir. T.d þá að valdakerfið byggir á ævafornum yfirráðum feðra yfir dætrum, konum, þjóðum. Eins og önnur orð getur faðir haft góða og slæma merkingu, háð samhengi.“