Brugðist við mikilli matarsóun

Norræna ráðherranefndin, undir forystu Íslendinga, hefur sett á dagskrá áætlunina Gróska og lífskraftur sem mun leitast við að draga úr sóun matvöru og hámarka nýtingu og ábata af lífrænum afurðum. Verkefnið snýst um almenna vitundarvakningu um matarsóun. Í stefnunni er höfuðáhersla lögð á að draga úr og koma í veg fyrir sóun matvæla. Í þessu efni verður horft til breyttra reglna um merkingu matvæla sem taldar eru löngu tímabærar. Hér á landi er unnið að innleiðingu reglugerðar um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda þar sem gert er ráð fyrir að matvæli megi vera á markaði eftir að „best fyrir“-dagsetningin er liðin enda miðast sú merking við að matvæli haldi fullum gæðum en sé neysluhæf áfram. Það getur haft þau áhrif að minna verður hent af matvælum og það verður leyfilegt að dreifa þessum matvælum, meðal annars til hjálparstofnana, en það hefur ekki verið leyfilegt hingað til. Merkingin „notist eigi síðar en“ verður þá notuð fyrir viðkvæm matvæli sem geta verið varasöm til neyslu eftir þann tíma. Áfram verður bannað að dreifa og selja matvöru eftir síðasta notkunardag, en fyrirsjáanlegt er að merkingin „best fyrir“ verður notuð á heldur færri vörur en nú er.