Breytt landslag framundan á Alþingi?

Ætla má að andrúmsloftið á Alþingi framundan kunni að breytast frá því sem verið hefur. Síðasta þing einkenndist af því að kosið var til Alþingis í lok september og síðan tóku við langdregnar stjórnarmyndunarviðræður sem stóðu yfir í meira en tvo mánuði. Á meðan var allt í bið. Þegar búið var að koma saman sömu ríkisstjórn og áður þurfti að afgreiða fjárlagafrumvarp í snatri áður en þingmenn héldu heim í jólaleyfi. Þegar þing kom saman að nýju eftir áramótin fór allt hægt af stað enda var búið að hræra þannig í stjórnarráðinu og þingmenn og jafnvel ráðherrar voru að reyna að átta sig á þeim milljarðabreytingum sem gerðar voru við endurfæðingu ríkisstjórnarinnar, enda þurfti að koma einum viðbótarráðherra fyrir með alls konar tilfæringum.

Lítið kom fram af málum sem höfðu mikla þýðingu á vorþinginu. Bæði gætti þreytu meðal þingmanna og ringulreiðar viðúrvinnslu mála. Svo var stutt í sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru í maí. Margir voru með hugann við þær, bæði innan þings og utan.

Alþingi kemur saman á næstunni. Þá er viðbúið að gerðar verði ákveðnar kröfur um að tekin verði til afgreiðslu mál sem döguðu uppi á síðasta þingi, enda ættu kosningar ekki að trufla störf þingsins. Alla vega liggur ekkert fyrir um kosningar ennþá þó að ekkert sé hægt að fullyrða algerlega um það. Stundum gera kosningar ekki boð á undan sér!

En fleira kemur til sem gæti breytt ásýnd þingsins. Fjöldi nýrra þingmanna kom inn eftir kosningarnar á síðasta ári. Fæstir þeirra voru mjög sýnilegir á Alþingi í fyrravetur, með undantekningum þó. Nú er einn hinna nýju þingmanna að verða flokksformaður og það gæti haft veruleg áhrif. Kristrún Frostadóttir er líkleg til að hrista verulega upp í umræðum á þinginu þegar hún verður komin með stöðu formanns Samfylkingarinnar. Hún er ung að árum, 34 ára, vel að sér um ýmis mál, með góða menntun og reynslu úr bankakerfinu. Hún er djörf, mælsk og orðhvöt og lætur engan eiga neitt hjá sér í rökræðum. Stundum minnir hún á Vilmund Gylfason þegar hann kom sem stormsveipur inn á Alþingi þrítugur að aldri. Vilmundur hristi verulega upp í stjórnmálaumræðunni og leiddi Alþýðuflokkinn til síns mesta sigurs í kosningunum árið 1978 þótt ekki væri hann formaður flokksins. Sigur A-flokkanna entist þó ekki lengi. Í þessum samanburði má einnig nefna Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem tók við formennsku í Framsóknarflokknum og kom inn á Alþingi 34 ára og varð forsætisráðherra árið 2013 þegar vinstri stjórnin alræmda hafði lokið ferli sínum, illu heilli. Sigmundur sagði af sér vorið 2016 vegna Panamaskjalanna.

Reynslan kennir okkur því að þegar ungt og galvaskt fólk tekur forystu á Alþingi getur margt breyst. Hér skal því spáð að Kristrún Frostadóttir muni hrista hressilega upp í stjórnmálaumræðunni á Alþingi strax og hún tekur við formennsku Samfylkingarinnar í október nk. Formenn flokka á Alþingi eru jafnan í kastljósinu þar sem framganga þeirra vegur þyngra en annarra þingmanna. Þegar Kristrún stígur fram sem formaður mun kristallast enn betur en áður að formenn hinna flokkanna eru flestir farnir að eldast og búnir að starfa lengi á Alþingi og í ríkisstjórnum. Þeim gæti stafað sú hætta af Kristrúnu að kjósendum þyki þeir þreyttir og séu einfaldlega orðnir leiðir á þeim eftir langan feril. Hinn 34 ára formaður Samfylkingarinnar mun undirstrika þetta með tilvist sinni og gæti það orðið formönnum hinna flokkanna skeinuhætt. Allavega tilefni til að meta stöðu sína vel.

Elstir eru formenn Flokks fólksins og Framsóknar. Þau eru bæði á sjötugsaldri. Sigurður Ingi hefur átt sæti á Alþingi í 13 ár. Formenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eru bæði á sextugsaldri og hafa bæði átt sæti á Alþingi í tvo áratugi. Bjarni hefur gegnt ráðherraembætti í 9 ár en Þorgerður Katrín í 7 ár. Formenn Miðflokks, Vinstri grænna og Pírata eru öll á fimmtugsaldri. Katrín hefur átt sæti á Alþingi í 15 ár og Sigmundur Davíð í 13 ár. Katrín hefur verið ráðherra í 9 ár og Sigmundur var forsætisráðherra í þrjú ár. Eins og fyrr greinir er Kristrún Frostadóttir 34 ára og verður því langyngst fomanna þingflokkanna.

Spennandi verður að sjá hvort Kristrún getur sett hina formennina í neikvætt ljós sem gæti jafnvel ýtt undir kröfur um formannaskipti hjá einhverjum hinna flokkanna. Áhugaverður þingvetur hefst innan skamms.

- Ólafur Arnarson.