Breiðhyltingar stoppuðu Kolbrúnu af: „Þessi fyrirspurn er ekkert annað en tímasóun“

Það getur verið mikilvægt fyrir borgarfulltrúa að vera í góðum tengslum við nærsamfélag sitt eins og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, fékk að kynnast í morgun.

Kolbrún birti færslu í íbúahópi Breiðhyltinga á Facebook snemma í morgun þar sem hún sagðist vera að íhuga að leggja fram fyrirspurn á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag um hraðamyndavélina á Breiðholtsbraut.

Fyrirspurnin sem Kolbrún íhugaði að birta var svona:

„Fulltrúi Flokks fólksins spyr hver sé tilgangur með hraðamyndavél á Breiðholtsbraut? Öllu jafna er brautin stappfull og umferðarhraði því lítill. Gera má því skóna að flest skipti sem gefið er í sé til að ná grænu ljósi. En þá er smellt af og viðkomandi fær rukkun í heimabanka sinn. Velta má upp tilgangi hraðamyndavéla? Eru þær til að nappa þessa ökumenn og auka tekjur ríkissjóðs eða eru þær til að auka umferðaröryggi?
Ef umferðaröryggissjónarmið er markmiðið þá á að setja upp hraðamyndavélar það sem umferð gangandi fólks er. Á þessum kafla er ekki umferð gangandi og ekki er hægt að segja að vegfarendur séu í hættu á þessum stað. Sjálfvirkt hraðaeftirlit er gott þar sem það hefur tilgang. Sjálfsagt er að upplýsa ökumenn um hraðann sem þeir eru á en að sekta á ekki alltaf við.“

Ef marka má athugasemdir við færslu Kolbrúnar voru Breiðhyltingar almennt ekki þeirrar skoðunar að fyrirspurnin væri góð.

„Tilgangur hraðamyndavéla er að koma í veg fyrir hraðakstur og að farið sé yfir á rauðu ljósi, fólk sem gefur í til að ná grænu ljósi er þá líklegast að keyra of hratt sem getur skapað hættu. Hraðinn á bílum á höfuðborgarsvæðinu er allt of hár og það veitir ekki af að fjölga myndavélum. Þessi fyrirspurn er ekkert annað en tímasóun,“ sagði til að mynda einn.

Annar sagði:

„Þarna ættu helst að vera tvær myndavélar frekar en bara ein sem flakkar milli stauranna með reglulegu millibili. Þarna eru framin fjölmörg brot gegn rauðu ljósi sem og hraðakstursbrot og ekki veitir af að sekta fyrir slíkt.“

Eftir að hafa lesið athugasemdirnar virðist Kolbrún hafa séð að sér. „Fundurinn er að byrja, ég legg þessa fyrirspurn ekki inn að sinni. Heyri að mörgum finnst hún ekki góð. Endurskoða þetta, takk öll, í bili.“