Brakandi ljúffengar eldbakaðar pizzur sem bragð er af

Berglind Hreiðarsdóttir köku- og matarbloggari og ekki síður fagurkeri með meiru eignaðist draumapallinn fyrir rúmu ári síðan. Hún betrumbætti pallinn nú í haust og fékk það sem var efst á óskalistanum „pizzahorn“ úti á pallinum. Í þættinum Matur & Heimili heimsótti Sjöfn Þórðar, Berglindi í nýjasta hlutann, pizzahornið sem er hið glæsilegasta með ítölsku ívafi. Hönnunin á pizzhorninu kemur mjög vel út bæði hvað varðar fagurfræðina og notagildið. Þarna er í raun komin við heimilið, útieldhús með pizzaofni þar sem hver hlutur fær að njóta sín. „Ég er ótrúlega hamingjusöm með pizzahornið mitt og við fjölskyldan vitum fátt skemmtilegra en að baka pizzur saman í pizzahorninu,“segir Berglind. Í tilefni heimsóknar Sjafnar bakaði Berglind að sjálfsögðu eldbakaðar pizzur í úti pizzaofninum og bauð henni að smakka og má með sanni segja að pizzurnar hafi hitt í mark, ljúffengar, brakandi eldbakaðar pizzur sem bragð er af. Berglind er með skothelda uppskrift af fullkomnum pizzabotn, sem er leikandi létt að baka til að fá þessa ítölsku þunnbotna pizzu sem er allra best eldbökuð. Hér fyrir neðan má sjá uppskriftina sem Berglind notaðist við í þættinum og jafnframt má sjá þáttinn í heild sinni hér: Matur & Heimili

M&H bökuð í pizzaofni.jpg

Pizzur í pizzaofni

Pizzabotnar

Uppskrift dugar í 5 litlar pizzur (um 10-12“)

 • 660 g af 00 hveiti frá Polselli
 • 400 ml volgt vatn
 • 2 tsk. salt
 • 1 pk. þurrger (11,8 g)
 • 2 msk. Virgin ólífuolía
 1. Setjið þurrefnin í hrærivélarskál og festið krókinn á (þetta deig má einnig hnoða saman í höndunum en þá þarf að gera stóra holu í þurrefnahrúguna og blanda vatni og olíu saman við í nokkrum skömmtum).
 2. Blandið þurrefnunum saman og hellið vatni og ólífuolíu saman við og hnoðið í nokkrar mínútur.
 3. Penslið stóra skál með matarolíu, veltið deigkúlunni upp úr olíunni, plastið skálina og leyfið að hefast í um 1 ½ - 2 klukkustundir.
 4. Skiptið niður í 5 hluta, hafið álegg að eigin vali og pizzasósu við hendina og gott er að gera pizzur fyrir pizzaofninn jafnóðum.
 5. Mikilvægt er að hafa vel af hveiti undir botninum, einnig á pizzaspaðanum sem lyftir pizzunni inn í ofninn. Þetta þarf allt að renna vel til og því mikilvægt að spara ekki hveitið og láta pizzuna ekki standa lengi með álegginu áður en hún fer í ofninn.
 6. Það er því gott að einhver einn sjái um að baka pizzurnar í ofninum á meðan annar/aðrir eru að græja álegg á pizzurnar.
 7. Það tekur aðeins 1 ½-2 mínútur að eldbaka hverja pizzu svo gott er að hafa næstu tilbúna á spaða/bakka þegar ein er tekin út, þannig ná þær allar að vera tilbúnar á svipuðum tíma.

Verið ykkur að góðu og njótið vel.

Pizzahornið.jpg

Pizzahornið er mikið prýði á pallinum og er hið glæsilegasta.

M&H Pizza la BH.jpg

Eldbökuð pizza með parmaskinku, klettasalati og parmesanosti sem tryllir bragðlaukanna.

M&H pizza með pepperoni BH.jpg

Eldbökuð pizza með pepperoni sem rífur í.

M&H rómantík í pizzahorninu.jpg

Ljúft að njóta á fallegum kvöldum og matarrómantíkin svífur yfir.

M&H stemningslýsing í pizzahorninu.jpg

Hlýleikinn og rómantíkin.

M&H pizzahornið.jpg

Haustfegurðin á pallinum hennar Berglindar.