Hringbraut skrifar

Bragi tætir bjarna í sig: „barnaníðingar sem skráðu sig í flokkinn fengu uppreista æru og sleikjó“

8. desember 2019
11:46
Fréttir & pistlar

Bragi Páll Sigurðsson rithöfundur hélt ræðu á Austurvelli sem vakti mikla athygli. Hún hófst á þessum orðum: „Fáum eitt algjörlega á hreint hérna: Sjálfstæðisflokkurinn er krabbamein.“

Þá spurði Bragi Páll hvort það væri ekki ótrúleg tilviljun að hvert einasta hneykslismál sem gengur yfir Ísland tengist flokknum á einhvern hátt.

„Og í hvert einasta skipti sem spillingar-sletturnar frussast yfir okkur, eins og gosbrunnur tengdur við rotþró, reyna flokkshollir eftir fremsta megni að hunsa málið, láta ekki ná í sig, gera svo lítið úr því og að lokum að ljúga, fram í bláan dauðan.“

Bragi Páll hélt áfram:

„Það væri þá kannski eðlilegt ef heiðarlegir einstaklingar innan flokksins áttuðu sig á því hverskonar mafíu þeir tilheyra og færu í einhverskonar sjálfsskoðun. En nei. Aldrei í jarðarsögunni hefur krabbamein farið í sjálfsskoðun. Sjálfstæðisflokkurinn er þar engin undantekning.

Í kjölfar hrunsins munaði reyndar minnstu að flokkurinn viðurkenndi fortíð sína, þegar þau héldu landsfund í ársbyrjun 2009. Í nokkrar vikur hafði endurreisnarnefnd flokksins verið að störfum, við það að rýna miskunnarlaust í hvaða mistök forysta flokksins hefði gert, sem hefðu leitt til hrunsins. Aðeins að kíkja í bleyjuna.

En þá mætti hugmyndafræðilegur og andlegur leiðtogi gráðugra frekjukarla á Íslandi, Davíð Oddsson, í pontu og tilkynnti hátt og snjallt að flokkurinn þyrfti ekki að fara í eina einustu naflaskoðun. Hann væri í alveg hreint glæsilegri bleyju. Hrunið hefði átt sér erlendar ástæður og í rauninni ekki tengst Íslandi rassgat. Þessi endurreisnarnefnd og allt hennar pakk gæti bara fokkað sér. Vinur hans, Hannes Hólmsteinn tók sér svo áratug í að komast að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Og þetta kokgleyptu stígvélasleikjurnar. Flokkurinn var fullkominn. Ekkert að sjá hér, nema náttúrulega rauðþrútinn bleyjubruninn.“

Þá talaði Bragi Páll um ráðherrana sem hafa sagt af sér í tíð Bjarn:

„Athugið að þrír ráðherrar Bjarna Ben hafa sagt af sér eða hætt þingstörfum vegna spillingar á meðan hann hefur verið formaður; Hanna Birna, Illugi Gunnarsson og Sigríður „Á-ekki-að-verá-þingi” Andersen. Allan tímann gerði Bjarni lítið úr afbrotum þeirra. Og þá er ótalin barnaníðingshátíðin sem flokkurinn hélt, þar sem allir barnaníðingar sem skráðu sig í flokkinn fengu uppreista æru og sleikjó, sumir hverjir í boði Benedikts, föður Bjarna. Já og Bjarni reyndi að leyna því líka, en það sprakk í andlitið á honum- og ríkisstjórnin hans féll í kjölfarið.“

Næsta kynslóð bíður

„Og næsta kynslóð jakkalakka bíður gröð í röðum handan við hornið að halda auðráninu áfram. Formaður og varaformaður SUS eru börn núverandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Dóttir Árna Mathiesen er formaður og sonur Páls Magnússonar er varaformaður. Hann skrifaði einmitt BA-ritgerð um Jón Steinar, með hjálp Jóns Steinars, um hvað allir séu alltaf vondir við greyið Jón Steinar. Þessir krakkar eru algjört met! En þetta er ekki þeim að kenna. Ef fyrirmyndirnar þínar eru gjörspilltir mafíósar er ósennilegt að þú breytist í talsmann nýrra tíma með breyttum vinnubrögðum“.

Þá endaði Bragi Páll ræðuna á þessum orðum:

„Ég veit allavega hvað ég ætla að gera. Kalla hlutina sínum réttum nöfnum. Og héðan í frá ætla ég að tala um mafíusamtökin Sjálfstæðisflokkinn sem bláa krabbameinið.“