Borgarstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Athygli vekur að landsbyggðin er nær algerlega sniðgengin við val á ráðherrum í nýrri ríkisstjórn. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra er eini ráðherrann sem býr utan höfuðborgarsvæðisins, í Hreppunum fyrir austan fjall.

Allir þrír ráðherrar Vinstri grænna búa í Reykjavík. Sama gildir um Lilju Alfreðsdóttur og Ásmund Einar Daðason eftir að hann varð þingmaður Reykjavíkur. Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, er í Kópavogi.

Sjálfstæðismennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir búa í Reykjavík eins og verðandi forseti Alþingis, Birgir Ármannsson. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, er í Garðabæ og í Kópavogi búa þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Jón Gunnarsson, nýr innanríkisráðherra.

Sé haldið út úr borginni í austurátt er Sigurður Ingi fyrstur þessara 13, í Syðra-Langholti, austan við Selfoss. Sé haldið áfram hringinn austur og norður um er næsta ráðherra að finna í Grafarvogi í Reykjavík!

Landsbyggðin skiptir ekki máli hjá nýrri ríkisstjórn. Um sannkallaða BORGARSTJÓRN er að ræða.

- Ólafur Arnarson