Borgarnesklúðrið mun enda hjá Mannréttindadómstólnum

Alþingi kemur saman næsta þriðjudag, 23. nóvember, vonum seinna. Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hefur verið að störfum í næstum tvo mánuði, farið í vettvangsrannsóknarferðir til Borgarness í þrígang, og nú er loks boðað að í næstu viku komi tillaga frá nefndinni um það hvernig brugðist skuli við klúðri og lögbrotum yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Hermt er að einungis tveir kostir séu til skoðunar; annað hvort verði seinni talning látin gilda eða farið verði í uppkosningu í þessu eina kjördæmi, sem er víst það sem lög og stjórnarskrá mæla fyrir um komi upp óleysanleg vandamál með kosningu eða talningu í einu kjördæmi. Uppkosning væri engu að síður mjög undarleg og andlýðræðisleg niðurstaða í ljósi þess að þá vita kjósendur þar úrslit í öllum öðrum kjördæmum og geta með kosningunni haft áhrif á uppbótamenn í öðrum kjördæmum.

Seinni talningin er líka galin niðurstaða vegna þess að skýrt liggur fyrir að atkvæðin lágu óvarin í veislusal á Hótel Borgarnesi frá því að úrslit voru tilkynnt eftir fyrri talningu á kosninganótt og þar til endurtalning hófst eftir hádegi daginn eftir. Salurinn var ólæstur og margir höfðu aðgang að honum og fóru inn í hann, eins og myndir sanna. Endurtalning hófst án þess að eftir henni væri óskað eða tilkynnt um hana og án þess að fulltrúum framboða væri gefinn kostur á að vera viðstaddir. Raunar mun talning hafa hafist áður en allir yfirkjörstjórnarmenn voru mættir á staðinn. Seinni talningin er því með öllu marklaus.

Nú liggur fyrir að öllum lögum og reglum var fylgt varðandi fyrri talninguna sem tilkynnt úrslit á kosninganótt voru byggð á. Því er óskiljanlegt að ekki skuli koma til greina af hálfu undirbúningsnefndarinnar að mæla með því að fyrri talningin, sú sem stenst lög, verði látin gilda. Það að seinni talningin hafi gefið vísbendingar um talningarmistök í fyrri talningu skiptir í raun engu máli vegna þess að í seinni talningu voru talin atkvæði sem legið höfðu eftirlitslaus fyrir hunda- og mannafótum í næstum hálfan sólarhing.

Ljóst er að niðurstaða kjörbréfanefndar og Alþingis í þessu talningarklúðri og útgáfa kjörbréfa hnýtir engan endahnút á þessa lönguvitleysu. Uppkosning fer freklega gegn lýðræði í landinu og seinni talningin er ólögleg. Við blasir að einhverjir munu leita réttar síns með málshöfðun, hvor leiðin sem farin verður, og ekki kæmi á óvart þótt þau mál rötuðu alla leið til Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Undanfarin ár hafa Íslendingar tekið virkan þátt í kosningaeftirliti Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í mörgum löndum. ÖSE hefur haft eftirlit með kosningum á Íslandi. Árið 2009 voru 10 fulltrúar í kosningaeftirliti hér. Árið 2017 voru þeir tveir, en í ár taldi ÖSE ekki ástæðu til að hafa sérstakt eftirlit með Alþingiskosningunum. Sýnir það glögglega að ekki er ÖSE óskeikul. Vel færi á því að við Íslendingar bæðumst undan því að senda fulltrúa í kosningaeftirlit í öðrum löndum þar til við höfum komið skikki á okkar eigin kosningar. Við gætum byrjað á að kenna talningafólki að telja og sett alla formenn yfirkjörstjórna á upprifjunarnámskeið í lögum sem gilda um kosningar og meðferð atkvæða

- Ólafur Arnarson