Bóluefnaklúður Svandísar versnar bara. Hún verður að víklja og viðurkenna mistökin

Mesta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar um þessar mundir er að hingað fáist nægilegt magn bóluefnis sem allra fyrst. Það dugar okkur ekki að fá bóluefni næsta sumar, eða haust eða ekki fyrr en í lok þessa árs. Við þurfum á þessu að halda strax og það hefur legið fyrir lengi. Af heilsufarslegum ástæðum er þetta afar brýnt og af efnahagslegum ástæðum er þetta upp á líf og dauða fyrir samfélagið allt. Ekki bara fyrir atvinnulífið, ferðaþjónustuna og matvælaiðnaðinn sérstaklega, heldur einnig fyrir fólkið í landinu og opinbera sjóði. Nú er um að ræða tólf prósent atvinnuleysi sem er nær allt í einkageiranum því fáir opinberir starfsmenn hafa misst vinnuna. Trúlega er yfir 20 prósent atvinnuleysi í öðrum greinum en hjá hinu opinbera og fyrirtækjum í opinberri eigu. Til þess að eðlilegt ástand komist á í atvinnulífinu og unnt verði að vinna bug á atvinnuleysinu hratt, þarf að bólusetja þorra landsmanna - og það strax eða á allra næstu vikum.

En heilbrigðisráðherra hefur haldið innkaupum bóluefnis í heljargreipum ráðuneytisins til þess að geta stýrt þessu sjálf. Um hreint fúsk hefur verið að ræða enda eru starfsmenn ráðuneytisins eða ráðherrann ekki með neina þekkingu á stórinnkaupum eða á lyfjamarkaði í heiminum. Þetta fólk þekkir væntanlega einungis til innkaupa fyrir venjuleg heimili. Það er fáránlegt að umboðsfyrirtækjum lyfjaframleiðendanna á Íslandi hafi ekki verið hleypt að borðinu til að sjá um þessi innkaup og nýta þekkingu og viðskiptasambönd sín til hagsbóta fyrir íslenska þjóð þegar svo mikið liggur við.

Ísraelsmenn hafa nú þegar náð að bólusetja fimmtán til tuttugu prósent allra landsmanna og þeir hafa tryggt sér bóluefni frá Pfizer til að ljúka allir bólusetningu í mars eða fyrr, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Ísraelsmenn eru heimsþekktir fyrir að vera snjallir í viðskiptum og samningum. Þeir hafa nýtt sér þekkingu og reynslu þjóðar sinnar og eru nú í fremestu röð á þessari stundu í heiminum hvað bólusetningar varðar. Þeir lokuðu verkefnið ekki inni í pólitískum sandkassa eins og Svandís hefur komist upp með að gera. Þessi handvömm gæti orðið okkur Íslendingum dýrt spaug.

Svandísi hefur verið mikið í mun að tryggja að íslenskir heildsalar og umboðsmenn kæmu ekki að þessu mikilvæga verkefni til þess að „bölvaðir heildsalarnir færu nú ekki að græða á vandræðum þjóðarinnar.” Heildsalar og annað fólk í viðskiptum er yfirleitt ekki hátt skrifað hjá sósíalistum.

Ætla má að við værum komin með allt það bóluefni í hendur sem þessi smáþjóð þarf á að halda ef fagfólki hefði verið hleypt að verkefninu. Þá væri verið að ljúka við bólsetningu þjóðarinnar þessa dagana en ekki einhvern tímann í sumar eða næsta haust með alvarlegum heilsu- og efnahagsafleiðingum sem hljóta að skrifast á fúsk ráðherrans varðandi þetta risaverkefni.

Hagkerfi Íslands verður af tugum milljarða króna í hverjum mánuði sem dregst að koma efnahagsástandi þjóðarinnar í eðlilegt horf að loknum bólusetningum landsmanna. Ljóst er að ríkissjóður Íslands missir einn milljarð króna á dag meðan þetta ástand varir. Sveitarfélögin verða einnig af miklum skatttekjum, fyrirtækin tapa milljörðum og fólkið sjálft missir tekjur og verðmæti, til dæmis þau tólf prósent þjóðarinnar sem þurfa að ganga um atvinnulaus og þyggja bætur. Þá er ótalinn heilsufarsvandi landsmanna, líkamlegur og andlegur.

Hver mánuður gæti kostað þjóðina sextíu milljarða hið minnsta. Tökum sem dæmi að hér hefði allt geta verið komið í eðlilegt horf í byrjun febrúar ef rétt hefði verið staðið að innkaupum bóluefnis á faglegan hátt. En miðað við það sleifarleg sem nú blasir við er ekki víst að allt komist hér í eðlilegt horf fyrr en í mai eða júní á þessu ári.

Fari svo illa þá gæti tap þjóðarbúsins numið viðbótar 250 til 300 milljörðum króna. Það eru peningar sem ekki eru til og munu þvi bætast við vaxandi skuldabagga þjóðarinnar.

Til þess að bjarga því sem bjargað verður úr þessu, þarf ríkisstjórnin að fela öðrum yfirstjórn þessa risaverkefnis en Svandísi Svavarsdóttur. Hún verður að hverfa frá þessu verkefni, víkja og viðurkenna alvarleg mistök sín. Ef forsætisráðherra sér ekki sóma sinn í því að grípa þarna inn í, verða forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að krefjast þess svo ábyrgðin af þessu klúðursmáli lendi ekki á þeirra herðum í aðdraganda kosninga sem verða í síðasta lagi eftir rúma átta mánuði.

Hér er um risastórt hagsmunamál allrar þjóðarinnar að ræða. Heilsufarslegt og efnahagslegt. Nú er ekki tími fyrir pólitískan sandkassaleik!