Boðflenna stríddi Íslendingum í Strassborg: „Hann virðist ekki hafa neinn áhuga á að koma sér í burtu“

Fastanefnd Íslands í Evrópuráðinu í Strassborg hefur greint frá skemmtilegri atburðaráðs sem hefur verið að eiga sér stað hjá nefndinni í dag og í gær. En óvænt boðflenna hefur verið að stríða meðlimum nefndarinnar.

Í gær var birt myndband á Twitter-reikningi nefnarinnar, en þar sást storkur ráfu um skrifstofur nefndarinnar.

„Þessi myndarlegi storkur kom á skrifstofuna okkar í heimsókn. Hann virðist ekki hafa neinn áhuga á að koma sér í burtu. Þannig kannski kemst hann í starfsnám hjá okkur,“ stóð í færslu ásamt myndbandinu.

Í dag virðist þó frásögnin hafa fengið farsælan endi.

„Kemur í ljós að nýji storks-starfsneminn var aðeins of ungur til að vera ráðinn. Hann fékk þó að gista hjá okkur í nótt, fékk mat, vatn og góðan nætursvefn. Í morgun var hann síðan sóttur af dýraverndunarsamtökunum SCAPA. Við óskum honum hamingjuríks langlífis í Strassborg.“

Þetta stóð í færslu sem birtist á Twitter í dag, en ásamt henni voru myndir af storknum í fangi starfsmanna SCAPA, og annari þar sem hann er kominn í búr.