Blöskrar ný aug­lýsing Bolla í Sau­tján: „Djöfull sárnaði mér að heyra þetta“

„Þessi flaututrúður óvandaðs fólks, sem sumt á byssu, er ekki bara að ráðast að stjórnmálamanni sem hann er ósammála. Hann gerir árás á sómasamlega og ærlega umræðu. Minni verða menn ekki, en að beita peningunum sínum óspart til að níða niður annað fólk,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, um viðskiptamanninn Bolla Kristinsson, sem flestir þekkja sem Bolla í Sautján, í nýrri færslu á Facebook.

Tilefni færslunnar er ný auglýsing sem Eiríkur heyrði á Bylgjunni þar sem „rödd liðlega miðaldra konu úthúða Degi borgarstjóra. Hann beri nú aldeilis ábyrgð á gráti þúsunda barna í þeim fjölskyldum sem bankagreifarnir komu á vonarvöl hér um árið“. Auglýsingin er kostuð af Bolla í Sautján.

„Djöfull sárnaði mér að heyra þetta. Enn einu sinni er vaðið í manninn. Enn einu sinni tala peningarnir – fyrirgefiði – garga peningarnir á Dag: „Þjónaðu mér annars veð ég í þig.“,“ skrifar Eiríkur.

„Þau eru líklega orðin svona fimmtán árin sem Dagur B. Eggertsson, kvæntur fjögurra barna faðir í Þingholtunum, hefur mátt búa við þetta. Hann ákvað að starfa í stjórnmálum og þetta er starfsumhverfið sem sérhagsmunirnir hafa ákveðið að búa honum nánast alla tíð. Af því hann hefur látið sannfæringu sína fyrir almannahagsmunum ráða hefur aldrei verið skortur á einhverju sérhagsmunaliði í SA, SI eða öðrum í Borgartúnskórnum til að kalla eftir því að ráða öllum okkar ráðum; hér eftir eins og hingað til.“

Eiríkur segir þá að menn geti ýmist verið sammála sjónarmiðum Dags um þróun borgarinnar eða ekki – það sé eðlilegt. „Þessa óvenjulegu, lágkúrulegu árás Bolla Kristinssonar á Dag hef ég ákveðið að taka persónulega. Þessi flaututrúður óvandaðs fólks, sem sumt á byssu, er ekki bara að ráðast að stjórnmálamanni sem hann er ósammála. Hann gerir árás á sómasamlega og ærlega umræðu. Minni verða menn ekki, en að beita peningunum sínum óspart til að níða niður annað fólk. Ég tek þessu þannig persónulega að í hvert sinn sem ég sé vini mína hér á FB væla málefnasnautt yfir borgarstjóranum í Reykjavík (sem nokkrir miðaldra karlhaugar gera alloft) mun ég svara þeim fullum hálsi.“

Hann segir þá að Bolli eigi sér „nokkra bergmálara á Mogganum og núorðið líka í Fréttablaðinu“.

„Viðskiptablaðið afritar-og-límir allt Borgartúnsbullið og er alveg sér á báti í þessu samhengi. Þannig getum við blaðalesarar fengið á tilfinninguna að það sé allt í voða í borginni. Sú tilfinning er samt ekki útbreiddari en svo að borgarstjórinn í Reykjavík nýtur trausts langt út fyrir raðir Samfylkingarfólks og nú er staðan sú að sá meirihluti sem hann leiðir er að bæta við sig.“

AÐVÖRUN - LÖNG FÆRSLA Ætli þetta séu orðin svona 15 ár? Ég fór að hugsa þetta þegar ég var á leið heim úr vinnunni á...

Posted by Eiríkur Hjálmarsson on Saturday, 6 March 2021