Blóðugt misvægi atkvæða er gamaldags og óþolandi

Á dögunum átti ég leið um Hvalfjarðargöngin og varð hugsað til þess þegar ég ók út úr þeim norðan megin að nú væri ég kominn á svæði þar sem fólk hefur tvöfaldan kosningarétt samanborið við fólkið sem býr sunnan megin við göngin.

Kosningalög á Íslandi kveða á um að ef munur á vægi atkvæða milli kjördæma er tvöfaldur skuli flytja eitt þingsæti milli þeirra í næstu kosningum. Tvisvar hefur á þetta reynt eftir að núverandi kosningalög tóku gildi 1999. Árið 2003 var eitt sæti fært frá Norðvesturkjördæmi í Kragann og aftur í kosningunum 2013. Í síðustu þingkosningum var munurinn næstum tvöfaldur en ekki alveg. Því færðist ekkert þingsæti yfir þá – en væntanlega næst.

Athyglisvert er að skoða vægi atkvæða á Norðurlöndunum. Danmörk, Svíþjóð og Finnland tryggja jafnt vægi allra kjósenda. Noregur hefur markvisst tryggt að íbúar Oslóborgar hafa minni kosningarétt en en íbúar landsbyggðarinnar. Ísland er þó í sérflokki í þessari mismunun og ekki þarf að grípa til neinnar höfðatölu til að framkalla þann „sigur“.

Ísland og Noregur eru vitanlega einu Norðurlöndin sem standa utan ESB. Danmörk, Svíþjóð og Finnland eru innan ESB og þar hafa allir kjósendur jafnan kosningarétt. Kannski má draga af því lærdóm. Í hverra þágu er ójafn kosningaréttur?

Um liðna helgi fór fram prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðvesturkjördæmi þar sem fjórir sitjandi þingmenn flokksins náðu að verja sína stöðu. Litlar sem engar líkur eru á að fólkið í fimmta og sjötta sæti nái kjöri á Alþingi, hvað þá því sjöunda. Raunar gæti fjórða sætið verið baráttusæti.

Um næstu helgi verður prófkjör hjá flokknum í Norðvesturkjördæmi. Núverandi oddviti flokksins í kjördæminu, Haraldur Benediktsson, og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, berjast um fyrsta sætið. Haraldur hefur lýst því yfir að hann þiggi ekki annað sætið tapi hann slagnum við Þórdísi. Engu að síður er ljóst að annað sætið í Norðvesturkjördæmi er mjög nánast öruggt þingsæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ef vægi atkvæða væri jafnt á Íslandi væru Haraldur og Þórdís Kolbrún að berjast um eina þingsætið sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti möguleika á í Norðvesturkjördæmi. Og þó, Þórdís Kolbrún væri væntanlega ekki sitjandi ráðherra og varaformaður síns flokks vegna þess að annað sætið hefði aldrei gefið þingsæti í Norðvesturkjördæmi í síðustu eða þar síðustu kosningum. Þess vegna væri hún tæpast í oddvitaslag nú.

Á hinn bóginn væri Vilhjálmur Bjarnason, sem ekki náði kosningu í fimmta sætinu í Kraganum 2016 og 2017, væntanlega einn þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem reyndi að verja sæti sitt í prófkjörinu í Kraganum um síðustu helgi. Fólkið í sjötta og sjöunda sæti þar teldist í góðri von um þingsæti – en á ekki séns í núverandi kerfi. Þess í stað mun einhver frambjóðandi flokksins handan Hvalfjarðarganganna (þó ekki Haraldur Benediktsson) fljúga inn á þing á helmingi færri atkvæðum í öðru sæti í Norðvesturkjördæmi.

Misjafnt vægi atkvæða milli landssvæða skekkir lýðræðið og er ekki skárra en mismunun milli kynja og kynþátta. Misjafnt vægi atkvæða kemur í veg fyrir að vilji kjósenda nái fram að ganga.

- - Ólafur Arnarson