Blóðug prófkjörsbarátta í Reykjavík sem Guðlaugur Þór mun vinna

Þó fjórar vikur séu til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er baráttan hafin á fullu og hún verður blóðug.

Oft hefur verið tekist á hin síðari ár með þeim afleiðingum að fylkingar hafa klofnað og frambjóðendur orðið sárir og jafnvel gefist upp.

Guðlaugur Þór utanríkisráðherra hefur oft verið í eldlínunni en hann er fæddur sigurvegari. Árið 2006 lagði hann sjálfan Björn Bjarnason í einvígi um annað sætið.
Það tók Björn á annan áratug að fyrirgefa það. Guðlaugur Þór og Illugi Gunnarsson glímdu oft. Nú er Guðlaugur utanríkisráðherra en til Illuga hefur lítið spurst.

Guðlaugur er leiðtogi flokksins í borginni og fátt sem getur breytt því í sjáanlegri framtíð. Þá gerist það að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skorar hann á hólm og vill vinna fyrsta sætið. Það er djarft útspil og talið óvarlegt af þeim sem best þekkja innviði flokksins í Reykjavík.

Fyrir nokkrum vikum tókust fylkingar þeirra tveggja á innan flokksins þegar kosið var í stjórn Varðar sem er yfirstjórn flokksins í borginni. Vörður hefur meðal annars með prófkjör flokksins að gera og ákveður fyrirkomulag og endanlega lista.
Kosið var um sjö sæti í stjórn Varðar og því mikið í húfi fyrir fylkingar Guðlaugs og Áslaugar.

Mikil smölun fór fram og ekkert til sparað.
Skemmst er frá því að segja að stuðningsmenn Guðlaugs Þórs hlutu öll sjö sætin en fylking Áslaugar ekkert sæti. Þessi slagur endaði sjö-núll. Þetta þykir benda til sterkrar stöðu Guðlaugs í borginni og er vísbending um öruggan sigur hans í prófkjörinu.

Aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Diljá Mist Einarsdóttir, hefur tilkynnt um framboð sitt með glæsilegum auglýsingum. Hún óskar eftir þriðja sætinu. Talið er að margir flokksmenn muni kjósa hana í annað sætið en það gæti orðið Áslaugu Örnu skeinuhætt. Ekki bætir úr skák að nú hefur Brynjar Níelsson einnig tilkynnt að hann gefi kost á sér í annað sætið. Þá má ætla að ýmsir úr hópi mestu hægri öfgamannana í flokknum kjósi Sigríði Andersen í annað hvort af efstu sætunum.

Þar af leiðandi er alls óvíst að Áslaug Arna nái öðru sætiu og þar með að leiða lista. Það yrði mikið áfall fyrir hana ef henni tækist ekki að ná þeim árangri að leiða annan hvorn lista flokksins í borginni. Það myndi trufla framasókn hennar innan flokksins mikið.

Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er klofinn í tvær fylkingar sem munu berjast blóðugri baráttu mæstu fjórar vikur.

Þetta er ekkert nýtt í flokknum og hefur stundum skaðað hann alvarlega. Nýjasta dæmið um það er hópurinn sem er í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Á bak við Eyþór Arnalds eru nokkrir borgarfulltrúar og svo eru aðrir eins og Hildur Björnsdóttir sem virðir ekki forystu Eyþórs og fer sínar leiðir.

Klofningur og flokkadrættir einkenna Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík allt frá tíma Gunnars Thoroddsens og síðar Alberts Guðmundssonar. Flokkurinn mun seint losna við þessa áru.

Framundan er barátta sem mun gleðja andstæðinga flokksins að vanda
enda er viðbúið að einhverjir úr hópi núverandi þingmanna og varaþingmanna muni liggja eftir í valnum.