Björn varð vitni að ótrúlegu spjalli sjómanns og starfsmanns Fiskistofu: „Er það ekki bara win-win?“

„Ég varð af tilviljun vitni að óformlegu spjalli starfsmanns Fiskistofu og sjómanns hjá stóru útgerðarfélagi á dögunum,“ segir Björn Þorláksson blaðamaður í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Í spjallinu sem Björn vitnar til ræddu starfsmaðurinn og sjómaðurinn um brottkast af skipum og fer samtalið sem hér segir:

Sjómaðurinn: „Þið vitið það alveg á Fiskistofu, vegna brottkastsins, að um leið og eftirlitsmaður frá ykkur er farinn af stóru skipunum þá drögum við fram rörið og hendum fiski villevekk.“

Starfsmaður Fiskistofu: „Jájá, en ég fæ borgað fyrir mína stikkprufu og þið veiðið verðmætasta fiskinn. Er það ekki bara win-win?“

Sjómaðurinn. „Eina leiðin til að stöðva brottkast er að það sé einn eftirlitsmaður frá Fiskistofu um borð í öllum skipum 40 metrar að lengd eða stærri allan sólarhringinn.“

Starfsmaður Fiskistofu: „Nei, það gengur ekki. Við þurfum að sofa. Það yrðu þá að vera tveir og það yrði allt of dýrt.“

Sjómaðurinn: „Þetta verður alltaf svona á meðan kvótakerfið er við lýði.“

Starfsmaður Fiskistofu: „Jájá, við gerum bara gott úr þessu.“

Björn segir ekki hægt að útiloka að ummæli starfsmannsins hafi fallið í hálfkæringi. Ljóst sé þó að starfsmenn ríkisins gagnast almannahagsmunum lítt án samfélagslegrar ábyrgðar.

„Fagleg fjarlægð ætti að vera keppikefli milli eftirlitsaðila og þeirra sem sæta eftirliti, jafnt í frítíma sem á vinnutíma. Að gera grín að lögbrotum styrkir ekki tiltrú okkar á að eftirliti sé best sinnt hjá ríkisstarfsmönnum,“ segir Björn.

Hann segir að ef rýnt er í opinber gögn frá Fiskistofu virðist sem stofnunin réttlæti tilvist sína með því að elta uppi sjómenn á litlum bátum.

„Smælingjarnir fá kæru fyrir sín brot á sama tíma og alkunna er að hinir stóru og voldugu fremja miklu alvarlegri brot sem hefur nánast verið sameinast um að líta undan. Drónar Fiskistofu svífa yfir smáfiskunum. Stórfiskarnir sleppa á meðan. Saga Íslands í hnotskurn,“ segir Björn sem segir spurningar vakna um hvort áhafnir ríkisrekinna eftirlitsstofnana hafi borið af leið. Nefnir hann nokkur dæmi.

„Hjá MAST hefur stjórnsýsla ítrekað skapað undrun og hneykslun. Hjá Umhverfisstofnun sagði yfirmaður eitt sinn að það væri pólitísk ákvörðun en ekki í verkahring starfsmanna að bjarga heiminum. Nú er Vegagerðin til umræðu og villur í opinberri rannsókn eftir alvarlegt slys. Makindaleg hugsun þar sem störfin fara að snúast um hag starfsfólksins en ekki almenning er aumingjaskapur og hefur leitt til vantrúar á kerfin okkar þótt sumt sé vel gert. Sérhygli of margra opinberra starfsmanna er mein sem þarf að ræða og uppræta.“