Björn segir ríkis­stjórnina ó­færa um að taka á vandanum: „Sjálf­stæðis­menn hafa fengið því fram­gengt að skattar verði ekki hækkaðir“

Lög­fræðingurinn Björn Jón Braga­son, segir ríkis­stjórnina í miklum vanda þegar það kemur að verð­bólgunni á Ís­landi sem hækkar ört í nýjum pistliá DV.

„Um þessar mundir mælir Hag­stofan verð­bólgu 7,2% og vextir Seðla­bankans voru á dögunum hækkaðir í 3,75%. Gylfi Zoëga hag­fræði­prófessor bendir á í nýjasta hefti Vís­bendingar að ekki dugi að beita stjórn­tækjum Seðla­bankans einum, sam­hliða þurfi aðilar vinnu­markaðarins að koma sér saman um hóf­legar hækkanir launa og þá verði að auka að­hald í ríkis­fjár­málum. Gylfi segir enn­fremur að skortur á sam­hæfingu og sam­stöðu ríkis­fjár­mála og peninga­stefnu muni að líkindum hafa í för með sér að vextir Seðla­bankans hækki enn meira en ella,“ skrifar Björn.

Öllu eytt jafn­harðan

„Í skýrslu fjár­mála­ráðs sem kom út í síðasta mánuði er meðal annars gagn­rýnt að öllum tekjum sé eytt jafn­harðan. Tekjurnar séu sveiflu­kenndar og út­gjöld sveiflu­kennd að sama skapi. Því geti reynst erfitt að hemja út­gjöldin þegar gefur á bátinn og af þessu hafi hlotist þrá­lát skulda­söfnun. En fjár­mála­ráð bendir á að tekju­auki hins opin­bera vegna tíma­bundins hag­vaxtar sé í reynd bara „froða sem ekki ætti að nýta til varan­legra ráð­stafana í aukningu út­gjalda“ heldur Björn á­fram.

„Þá hafi stundum verið stigið „á afl­gjöfina þegar þörf var á að stíga á bremsuna í ljósi hag­sveiflunnar á þeim tíma“ eins og það er orðað. Slíkt ynni gegn stöðug­leika og sýndi þörfina á festu og aga við stjórn opin­berra fjár­mála. Þegar þannig hátti til að veður­spár rætist sjaldnast þurfi að huga að ríkjandi vind­áttum. Út­gjöld ættu því að­eins að aukast í takti við lang­tíma­leitni vaxtar í efna­hags­lífinu. Þannig mætti koma í veg fyrir að stjórn­völd falli í­trekað í þá freistni að eyða jafn­óðum því sem kemur í kassann. Þá bendir fjár­mála­ráð líka á þá hættu sem getur skapast nú um stundir þegar tekjur hins opin­bera aukast tíma­bundið vegna verð­bólgu en þetta kallar ráðið „verð­bólgu­froðu,“ skrifar hann svo áður en hann hleður í ríkis­stjórnina og segir hann ó­færa um að taka á vandanum.

„Fjár­mála­ráð gerir verð­bólgu­spána að um­tals­efni en í á­ætlunum stjórn­valda er gert ráð fyrir að hún verði nær 6% á þessu ári en fari síðan lækkandi og verði um 2,5% þegar á árinu 2025. Ráðið bendir á að þetta gangi þá og því að­eins upp að niður­staða kjara­samninga verði í sam­ræmi við undir­liggjandi stöðu hag­kerfisins. Hér reyni enn og aftur á sam­spil peninga­mála og fjár­mála hins opin­bera og svo vitnað sé orð­rétt til skýrslu fjár­mála­ráðs: „Nægi tekjur hins opin­bera ekki fyrir ráð­gerðum út­gjöldum þarf að hag­ræða í rekstri, draga úr út­gjöldum eða afla aukinna tekna með skatt­heimtu,“ Skrifar Björn.

„Við blasir að ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur getur ekki tekið á vandanum af pólitískum á­stæðum. Sjálf­stæðis­menn hafa fengið því fram­gengt að skattar verði ekki hækkaðir að neinu marki en á móti fá Fram­sóknar­flokkur og sér í lagi Vinstri grænir að auka út­gjöld. Nú­verandi ríkis­stjórnar­mynstur gengur nefni­lega ekki upp: stjórn getur ekki verið hvort tveggja í senn til hægri og vinstri í efna­hags­málum; á­herslan verður að vera í aðra hvora áttina. Niður­staða flokkanna þriggja hefur ein­fald­lega orðið sú að gefast upp gagn­vart bákninu, eyða um efni fram og velta vandanum yfir á komandi kyn­slóðir.“

Björn segir að kjarni málsins sé nefni­elga sá að frá því fyrir far­aldurinn hefur verið við­varandi halli á rekstri ríkis­sjóðs og við blasir á­fram­haldandi halla­rekstur og skulda­söfnun. Ríkis­stjórnin ætlar sér ber­sýni­lega ekki að taka á vandanum og kyndir þar með undir verð­bólgu­bálið.