Björn segir Bjarna hafa breytt rétt aldrei þessu vant: „Ekk­ert minna en siðferðis­brest­ur“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fer yfir viðbrögð Dómarafélagsins vegna boðaðrar leiðréttingu á launum þeirra vegna mistaka sem uppgötvuðust í síðustu viku og svör Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í nýjum pistli í Morgunblaðinu í morgun.

„Dóm­ara­fé­lagið brást ókvæða við og kallaði boðaða leiðrétt­ingu á laun­um þeirra „at­lögu fram­kvæmda­valds­ins að dómsvald­inu sem ekki á sér hliðstæðu í ís­lenskri rétt­ar­sögu“ og að all­ir gætu átt „von á því að fram­kvæmda­valdið geti lækkað laun dóm­ara eft­ir eig­in geðþótta“,“ segir Björn í pistli sínum.

Að sögn Björns brást Bjarni ókvæða við gagnrýni Dómarafélagsins og sagði málflutning þeirra auman og að hann hafi lokið svari sínu með því að segja: „Gjör rétt. Ávallt“.

„Fjár­málaráðherra bæt­ir í og spá­ir fyr­ir um málsvörn dóm­ara og seg­ir: „Ég vænti þess að þeir vilji bera fyr­ir sig að hafa tekið við of háum laun­um und­an­far­in ár í góðri trú.“ En finnst önn­ur rök yf­ir­sterk­ari – nán­ar til­tekið að láta efsta lag rík­is­ins „skila því sem of­greitt var úr op­in­ber­um sjóðum. Annað væri hrika­legt for­dæmi og er ekk­ert minna en siðferðis­brest­ur,“ segir Björn jafnframt í pistli sínum og bætir við að honum þyki þetta svar koma úr hörðustu átt. „Hér verð ég hins veg­ar að segja að þetta kem­ur úr hörðustu átt.“

Það sé ánægjulegt að laun æðstu ráðamanna hafi loksins verið lækkuð enda hafi þau hækkað langt umfram almenna launaþróun með ákvörðun kjararáðs fyrir nokkrum árum.

„Þá fannst fjár­málaráðherra óþarfi að gera rétt og leiðrétta þann mun. Sú ákvörðun varð af­drifa­rík þar sem það má skilj­an­lega rekja aukna hörku í kjaraviðræðum síðan til þess siðferðis­brests. Efsta lag rík­is­ins fékk þar meira en aðrir,“ segir Björn og heldur áfram: „Ef fjár­málaráðherra hef­ur hins veg­ar vaxið sam­viska vegna þessa máls þá ætti hann kannski að skoða aðeins í bak­sýn­is­speg­il­inn og gera upp fyrri verk sín út frá því sjón­ar­horni.“

Að sögn Björns stöndum við frammi fyrir þeim vanda að lagalega hafi dómarafélagið líklega rétt fyrir sér í málinu, því þeir hafi tekið við ofgreiddum launum í „góðri trú“. Þannig verði yfirlýsingar og fyriráætlanir Bjarna um endurheimt ofgreiddu launanna að engu.

„Ég held að ráðherra viti það og vegna þess að ráðherra veit það þá er það rosa­lega ódýrt fyr­ir hann að heimta end­ur­greiðslu, sem mun aldrei ger­ast, af því að út á við lít­ur hann út fyr­ir að berj­ast fyr­ir rétt­læti,“ segir Björn jafnframt í pistli sínum.

„Þannig að, hæst­virti fjár­málaráðherra. Í anda þessa gamla orðatil­tæk­is „put your mo­ney wh­ere your mouth is“, hvernig væri að byrja á því að líta í eig­in barm? Þarf ekki að end­ur­skoða of­greiðsluna frá 2016 sem hef­ur hækkað laun þín um millj­ón á mánuði? Er flokk­ur­inn þinn bú­inn að end­ur­greiða styrk­ina frá FL group og Lands­bank­an­um? Gjör rétt. Er það ekki? Ávallt?“