Björn sár og svekktur: „Er ekki bara verst að kjósa Framsókn?“

„Það er vont að vera svikinn. Það vita þeir sem reynt hafa. Tilfinningin er sár og hún situr í manni. Gleymist ekki,“ segir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni gagnrýnir Björn Framsóknarflokkinn harðlega og rifjar upp að fyrir síðustu kosningar hafi Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, lýst því margoft að flokkurinn myndi efla kvikmyndagerð á Íslandi kæmist hann til valda.

„Þau sæju þá miklu möguleika sem felast í að virkja íslenskt hugvit til að búa til útflutningsvörur á menningarsviðinu og skapa spennandi störf fyrir ungt fólk. Kvikmyndagerðarfólk sem árum saman hafði talað fyrir daufum eyrum um möguleika greinarinnar sá að sennilega væri bara best að kjósa Framsókn.“

Björn segir að nú, aðeins tveimur árum síðar, eigi að svíkja þessi loforð.

„Menningarráðherra, sem er varaformaður Framsóknarflokksins, ætlar að skera framlög til Kvikmyndasjóðs niður um 30%! Slíkur niðurskurður mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir greinina eins og mundi gerast í hvaða grein atvinnulífsins sem yrði fyrir samdrætti af þessari stærðargráðu.“

Og til að bæta gráu ofan á svart segir Björn að engin haldbær rök hafi verið færð fyrir þessari ákvörðun.

„Ráðherra segir að þegar sjóðurinn var stækkaður fyrir tveimur árum hafi það verið tímabundin ráðstöfun vegna kóvid. Það er ekki rétt eins og og allir geta séð sem skoða tilkynningar ráðuneytisins, viðtöl við menningarráðherra eða fréttatilkynningar frá þessum tíma. Stækkun sjóðsins er þar alltaf sögð vera afrakstur nýsamþykktrar kvikmyndastefnu sem ráðherra segist vera mjög stolt af og hvergi er minnst á átak vegna kóvid. Enn vitlausari hljómar þessi skýring í ljósi þeirra orða menningarráðherra að þessi lækkun muni ganga til baka á næsta ári. Er ætlunin þá að leggja kvikmyndagerðinni til kóvidstyrk árið 2024? Nei auðvitað ekki. Niðurskurðurinn er einfaldlega ákvörðun menningarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins sem velur að nota þessa peninga í önnur verkefni.“

Björn bætir við, innan sviga, að niðurgreiðslum vegna kvikmyndatöku á Íslandi sé stundum þvælt inn í þessa umræðu en sé allt annað mál. „Það er tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð en ekki styrkur til íslenskrar kvikmyndagerðar. Hækkun á endurgreiðslunni er einfaldlega til að halda í við aðrar þjóðir í samkeppni um að ná þessum tekjum til sín og er ætluð erlendum fyrirtækjum.“

Björn segir það vonda í þessu máli vera að það er engin nauðsyn sem rekur ráðherra menningarmála til að taka þessa ákvörðun, nema síður sé.

„Í umræðum á Alþingi stærði ráðherrann sig af því að ríkisstjórnin legði svo mikla áherslu á menningarmálin að í fjárlagafrumvarpinu væru framlög til ráðuneytis hennar aukin um 6% frá síðasta ári, þrátt fyrir erfitt árferði. Engu að síður velur hún að skera kvikmyndagerðina niður um 30%!“

Björn spyr og veltir fyrir sér hvað forystu og fólki í Framsóknarflokknum finnst um þessa stefnubreytingu.

„Flokkurinn barðist fyrir að fá þetta stefnumál sitt inn í málefnasamning ríkisstjórnarinnar og tókst það. En nú ætlar einn af ráðherrum flokksins hins vegar að snúa af þessari braut og greiða þess í stað kvikmyndaiðnaðinum þungt högg og færa framlög til málaflokksins aftur til þess sem þau voru fyrir sjö árum síðan. Ég veit hvað okkur sem störfum í kvikmyndaiðnaðinum finnst um þennan niðurskurð. Okkur finnst við vera svikin. Sú tilfinningin er ekki góð og gleymist seint. Hún vekur líka spurninguna: Er ekki bara verst að kjósa Framsókn?“